Tólf létust og fjórir slösuðust í umferðarslysi í norðurhluta Mexíkó í gærkvöld.
Slysið átti sér stað þegar pallbíll með 16 manns innanborðs féll ofan í gil í fjöllum Santiago-svæðisins í Nuevo Leon-fylki að sögn Erik Cavazos, forstjóra almannavarna.
Ellefu farþegar létust á staðnum og einn lést á sjúkrahúsi og þá voru fjórir fluttir á sjúkrahús en pallbíllinn hrapaði 120 metra niður í gilið.
Þetta er þriðja mannskæða umferðarslysið í Mexíkó í þessum mánuði en þann 11. mars létust 32 í tveimur slysum í norður- og suðurhluta Mexíkó.
Þá fórust 38 manns þegar vöruflutningabíll og farþegarúta skullu saman í suðausturhluta landsins í síðasta mánuði.