Viðræðum Rússa og Bandaríkjamanna um frið í Úkraínu er nú lokið eftir um tólf klukkustunda fund í dag.
Rússneskir miðlar greina frá því að sameiginleg yfirlýsing verði birt á morgun.
Fulltrúar Bandaríkjanna og Úkraínu komu saman til fundar í Riyadh í Sádi-Arabíu í gær, til viðræðna um einhvers konar vopnahlé í innrásarstríði Rússa.
Héldu svo viðræðurnar áfram í dag með fulltrúum Rússa og Bandaríkjanna.
Ólíklegt þykir að viðræðurnar leiði til vopnahlés. Greint var frá fyrr í dag að viðræður dagsins myndu snúa að því að Rússar veiti Úkraínumönnum heimild til þess að flytja korn og hveiti um Svartahafið.
Samhliða yrði Rússum heimilt að flytja landbúnaðarvörur og áburð á viðskiptasvæði sem lokuðust vegna viðskiptaþvingana.