Fulltrúar Rússa, Bandaríkjamanna og Úkraínumanna munu hefja friðarviðræður í Riyad í Sádi-Arabíu í dag.
Ólíklegt þykir að viðræðurnar muni leiða til vopnahlés. Segir að viðræðurnar í dag muni snúa að því að Rússar veiti Úkraínumönnum heimild til þess að flytja korn og hveiti um Svarta hafið. Samhliða verði Rússum heimilt að flytja landbúnaðarvörur og áburð á viðskiptasvæði sem lokuðust vegna viðskiptaþvingana.
Fulltrúar sendinefnda landanna eru í sömu byggingu í Ryiad. Ekki er búist við því að Rússar, Bandaríkjamenn og Úkraínumenn muni funda saman, heldur muni sendinefnd Bandaríkjanna funda í hvoru lagi fyrir sig með fulltrúum Úkraínu og Rússa. Samkomulag um vopnahlé er sagt víðs fjarri en tilgangur viðræðna er sagður sá að ná samkomulagi um afmarkaða þætti sem nota megi sem grunn til víðtækara samkomulags.
Samkvæmt upplýsingum frá Úkraínustjórn voru 57 af 99 árásardrónum Rússa skotnir niður í nótt. Rússar segjast hins vegar hafa skotið niður 28 dróna sem sendir voru frá Úkraínu.
Þá tilkynntu sérveitir í Úkraínu að fjórar herþyrlur Rússa hefðu verið eyðilagðar á jörðu niðri í Begorod.