Hafa rænt fleiri en tuttugu þúsund börnum

Þar sem áður spratt gras, í borginni Poltava, liggur nú …
Þar sem áður spratt gras, í borginni Poltava, liggur nú leikfang barns einmana í gróðursnauðum jarðvegi eftir loftárás Rússa. Þeir myrtu fjórtán í árásinni, þar af þrjú börn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Daglegar árásir Rússa á saklausa borgara Úkraínu sýna að markmið þeirra hefur ekki breyst frá því þeir réðust af fullu afli inn í landið fyrir rúmum þremur árum. Þar hafa þeir framið glæpi gegn mannkyninu og úrslit stríðsins munu hafa margt að segja um öryggi annarra lýðræðisríkja.

Þetta segir Maríana Betsa, aðstoðarutanríkisráðherra Úkraínu.

Blaðamaður átti við hana fund ásamt fleirum í utanríkisráðuneytinu í Kænugarði í liðinni viku, en síðdegis daginn áður höfðu Donald Trump Bandaríkjaforseti og Vladimír Pútín Rússlandsforseti ræðst við símleiðis.

Í Kreml hafði tólinu þó vart verið skellt á símtækið áður en hafin voru á loft á annað hundrað vélfygla, hlaðin sprengjum, til að ráðast á borgir Úkraínu.

Þá um nóttina dundu árásir Rússa á borginni svo að athygli vakti á Íslandi, enda lítill hópur íslenskra blaðamanna þar úti.

Maríana Betsa við fundarborðið ásamt aðstoðarmönnum sínum.
Maríana Betsa við fundarborðið ásamt aðstoðarmönnum sínum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vilja leggja Úkraínu í rúst

Árásir sem þessar þykja daglegt brauð nú á fjórða ári stríðsins. Ráðherrann tók þó fram að nóttin hefði verið erfið fyrir þjóðina. Kannski því að sumir höfðu borið von í brjósti um að símtal leiðtoganna skilaði einhverjum árangri.

„Þetta er raunveruleikinn daglega, því miður. Og þetta var aftur til marks um að markmið Rússa hefur ekki breyst,“ sagði ráðherrann.

„Þeir vilja leggja landið í rúst og tortíma Úkraínu sem þjóð.“

Engin merki væru enn sjáanleg frá Rússum um að þeir vildu binda enda á stríðið.

„Okkar afstaða er mjög skýr. Engar málamiðlanir um landsvæði. Ekkert um Úkraínu án Úkraínu. Enginn ætti að fá að ákveða hvort Úkraína geti gengið til nokkurs bandalags. Engar takmarkanir á getu Úkraínu til að verja sig. Svo einfalt er það.“

„Viljum frið meira en nokkur annar“

Maríana bendir á að Úkraína hafi ítrekað látið í ljós vilja til að koma á friði. Til að mynda féllust úkraínsk yfirvöld á tillögu Bandaríkjanna um algjört vopnahlé í þrjátíu daga. Þeirri tillögu hafnaði Vladimír Pútín Rússlandsforseti.

„Við viljum frið meira en nokkur annar. En það ætti að vera réttlátur friður. Því að Rússland fremur þjóðarmorð, glæpi gegn mannkyninu og stríðsglæpi á iðnaðarskala, gegn Úkraínu og Úkraínumönnum.“

Málið snúist einnig um réttlæti fyrir úkraínsku þjóðina.

„Það eru svo margir staðir og borgir sem Rússar gjöreyðilögðu. Maríupol, Bakhmút, Avdívka og fjöldi annarra. Bara tortímt algjörlega,“ segir Maríana.

„Það sem Rússar gerðu við Maríupol, það vilja þeir gera við alla Úkraínu. Að eyða henni út af kortinu, ef þeir geta ekki sett hana undir hæl sinn. Og það geta þeir ekki.“

Úkraínskur hermaður, sem Rússar drápu fyrr í mánuðinum, fékk útför …
Úkraínskur hermaður, sem Rússar drápu fyrr í mánuðinum, fékk útför við Sjálfstæðistorgið í Kænugarði. Talið er að tugir þúsunda hafi verið drepnir þeim megin víglínunnar. AFP

Verja þegar austurhlið bandalagsins

Ef koma eigi á friði þá þurfi hann einnig að vera til frambúðar.

„Með áreiðanlegum tryggingum. Besta öryggistryggingin er aðild að Atlantshafsbandalaginu. Við sjáum það mjög skýrt. Fyrir okkur væri aðild að NATO skilvirkasta leiðin.“

Bætir hún við að í augum Úkraínumanna séu þeir nú þegar að verja austurhlið bandalagsins.

„Aðild að bandalaginu er á dagskrá. Þrátt fyrir að við vitum að í sumum ríkjum séu mismunandi viðhorf, þá er hún á dagskrá.“

Hvað varðar aðrar öryggistryggingar, áður en komið er að mögulegri NATO-aðild, nefnir hún að aðsend herlið yrðu Úkraínu mjög mikilvæg.

„Til að verja öryggi þjóðarinnar, hvort sem er í lofti, á láði eða á legi. En auðvitað þurfum við að hafa skýran skilning um þær öryggistryggingar sem Úkraínu eru fengnar, áður en Úkraína gengur í NATO.“

Skelfilegar aðstæður

Hún ítrekar að stríðið hafi haft hræðilegar afleiðingar og að aðstæður á jörðu niðri séu skelfilegar.

„Úkraína er tilbúin að gera það sem þarf, en við höfum ekki séð nein merki frá Rússum um að þeir vilji eiga samskipti á einhverju stigi og hætta þessum árásum,“ segir hún.

„Þeir hefðu getað gert það fyrir löngu. Þeir hefðu getað gert það árið 2014, eða árið 2022, eða árið 2024. Eða bara í dag, þá gætu þeir hörfað burt úr landinu okkar. En það væri ekki nóg, því við viljum réttlæti og við viljum ábyrgð.“

Hvað finnst þér um þau skilyrði sem Pútín setti fyrir vopnahléi þegar tillaga Bandaríkjamanna var borin undir hann?

„Þau eru enn einn vitnisburðurinn um að Rússland setur skilyrði við allt. Við samþykktum vopnahlé samkvæmt tillögu Bandaríkjanna, án nokkurra skilyrða,“ segir Maríana.

„Þetta er leikurinn sem Rússland er að spila og sýnir aftur að þeim er ekki alvara með þessum viðræðum.“

Við Sjálfstæðistorgið í Kænugarði stendur ótrúlegur fjöldi þjóðfána Úkraínu, svo …
Við Sjálfstæðistorgið í Kænugarði stendur ótrúlegur fjöldi þjóðfána Úkraínu, svo margir að ógerlegt er að telja þá. Hvern og einn þeirra hefur fólk sett niður til minningar um ástvin sem látist hefur sökum innrásarstríðs Rússa, sem hófst fyrir rúmum þremur árum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kreml segist fallast á vopnahlé um orkuinnviði

Þess ber hér að geta að frá Kreml barst sú tilkynning í kvöld, að Bandaríkin og Rússland hefðu samþykkt að 30 daga vopnahlé um orkuinnviði gilti um rafstöðvar, leiðslur og olíuhreinsistöðvar.

Rafmagnsframleiðsla og dreifikerfi nær einnig undir skilmála vopnahlésins, að sögn Kremlar.

Pútín tilkynnti vopnahléið í síðustu viku en Rússar höfðu til þessa ekkert gefið upp um nánari skilgreiningar.

Stjórnvöld í Kænugarði hafa aftur á móti sakað Rússa um að brjóta ítrekað gegn því, meira að segja strax nóttina eftir yfirlýsingu Pútíns.

Vilja gera lífið óbærilegt

En innan Kremlar virðist samt sem mönnum hugnist ef til vill mest vopnahlé af þessu tagi, það er varðandi orkuinnviði.

Spurð út í þetta nefnir Maríana að Rússar hafi einmitt fyrir um hálfu ári hert til muna slíkar árásir gegn Úkraínu.

„Til að gera líf okkar nánast óbærilegt. Rússland vill gera Úkraínumönnum lífið svo leitt að þeir neyðist til að flýja landið, sérstaklega á veturna. En úkraínska þjóðin er staðföst.“

Árásir Rússa úr lofti eru daglegt brauð fyrir þá sem …
Árásir Rússa úr lofti eru daglegt brauð fyrir þá sem búa í borgum Úkraínu. Minna fer fyrir þeim í dagsbirtu og mannlífið er eftir því. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samkomulag um Svartahaf en Rússar setja skilyrði

Við þetta bættist einnig í kvöld, frá Hvíta húsinu, tilkynning um að Rússland og Úkraína hefðu hvort um sig samþykkt að hætta hernaði á Svartahafi.

Ekki leið þó á löngu áður en frá Kreml barst skeyti um að slíkt samkomulag tæki aðeins gildi þegar búið væri að létta ákveðnum efnahagsþvingunum af Rússlandi.

Setja Rússar sem skilyrði afléttingu hafta sem sett voru á landbúnaðarbanka rússneska ríkisins og aðrar fjármálastofnanir tengdar alþjóðaviðskiptum með matvæli og áburð.

Kalla þeir einnig eftir því að sömu stofnanir fái á ný tengingu við alþjóðlega SWIFT-greiðslukerfið.

Aragrúi sönnunargagna um glæpi Rússlands

Maríana viðurkennir að það geti verið erfitt fyrir fólk í öðrum löndum að skilja ástandið í Úkraínu, þar sem það upplifi ekki stríðið og afleiðingar þess á eigin skinni.

„En við búum í nútímaheimi þar sem er aragrúi sönnunargagna um hvað Rússland er búið að gera í fjölda ára, ekki aðeins í Úkraínu,“ segir hún og nefnir Georgíu, Moldóvu og Hvíta-Rússland sem dæmi um fórnarlömb Rússa.

„Það sem ég get helst mælt með er að koma til Úkraínu. Heimsækja landið okkar. Dvelja hér nokkra daga. Þið munið sjá fallegt land, fallega þjóð, en á sama tíma þann grimma raunveruleika sem við búum við alla daga og allar nætur. Þetta er ömurlegt.“

Á milli þess sem rætt var við Maríönu og þetta ritað náðu Rússar að drepa enn fleiri saklausa borgara með skeytingarlausum sprengjuárásum sínum.

Börn á leið inn í kennslustofu í skóla neðanjarðar í …
Börn á leið inn í kennslustofu í skóla neðanjarðar í úkraínsku borginni Saporisjíu. AFP

Svo mörg börn sem hafa ekki lengur foreldra

Til dæmis um breyttan og verri veruleika nefnir ráðherrann að skólum sé nú skylt að vera með sprengjubyrgi og að reglulega þurfi að gera langt hlé á skólastarfi víða í landinu, þar sem börnum er skipað í skjól á meðan úti óma loftvarnaflautur.

Fleiri en sex milljónir Úkraínumanna hafa flúið landið vegna innrásarstríðs Rússa. Hátt í fjórar milljónir manna eru svo á vergangi í sjálfu landinu af sömu sökum.

„Þetta er eitthvað sem við viljum vinna í. Sérstaklega varðandi þá sem eru utan landsins, við viljum fá þá til baka því þeir eru hluti af þjóðinni okkar. En þetta er ekki auðvelt á meðan við búum enn við óöryggi.

Það eru svo mörg börn sem hafa ekki lengur neina foreldra. Það eru svo margir foreldrar sem misst hafa börnin sín. Fjöldi barna hefur misst útlimi og þá hafa mörg börn verið flutt á brott með valdi, þvert á Genfarsáttmálann og alþjóðalög, til búsetu í Rússlandi,“ segir Maríana.

„Þau telja fleiri en tuttugu þúsund. Það er enn annar harmleikur. Það sem Rússar reyna að gera þeim, sérstaklega þeim sem misst hafa foreldra sína, er að afmá alla sjálfsvitund þeirra. Gefa þeim önnur nöfn, mennta þau á rússnesku og dæla í þau áróðri.“

Við dómkirkju heilags Mikaels í Kænugarði stendur veggur alsettur þúsundum …
Við dómkirkju heilags Mikaels í Kænugarði stendur veggur alsettur þúsundum mynda af úkraínskum hermönnum, sem fallið hafa fyrir hendi Rússa í innrásarstríði þeirra. Langt er síðan ekkert tóm var lengur eftir fyrir nýjar myndir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Barátta lýðræðis og einræðis

Hún segir þetta enn einn þáttinn í svokölluðu fjölþáttastríði sem Rússar há, ekki aðeins gegn Úkraínu og Evrópu heldur gegn alþjóðasamfélaginu.

„Því að lyktir þessa stríðs munu hafa áhrif á stöðu lýðræðis í heiminum. Þær munu segja til um öryggi Evrópu og öryggi lýðræðisríkja.

Vegna þess að einmitt núna er þetta barátta lýðræðis og einræðis. Lýðræðisstjórnar og alræðisstjórnar. Þátttaka Írans og Norður-Kóreu í stríðinu undirstrikar þetta og gefur átökunum enn aðra vídd,“ segir Maríana.

„Sú staðreynd að norðurkóreskir hermenn eru að berjast í Úkraínu – ein og sér – sýnir að stríðið verður einnig afdrifaríkt fyrir ríkin við Indlands- og Kyrrahaf,“ bætir hún við.

„Það er orðið ljóst að öryggi Úkraínu, Evrópu og allra lýðræðisríkja er nú samtvinnað.“

Í þessu sambandi má nefna að stjórnvöld í alræðisríkinu Kína hafa ekki farið leynt með áætlanir sínar um innrás í lýðræðisríkið Taívan, skammt undan ströndum þess. Telja má líklegt að forsetinn Xi Jinping horfi til þróunar mála í Úkraínu, og viðbragða vestrænna ríkja, þegar hann metur hvort eða hvenær sé rétt að ráðast til atlögu.

Maríana Betsa ásamt Friðriki Jónssyni, sem er sendiherra Íslands gagnvart …
Maríana Betsa ásamt Friðriki Jónssyni, sem er sendiherra Íslands gagnvart Úkraínu með aðsetur í Varsjá. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rússar vilja tvístra og sundra

Að lokum er Maríana spurð út í viðræður um aðild að Evrópusambandinu, sem að sinni virðist öllu raunhæfari en aðild að NATO.

Í ljósi þess að tvö ríki sambandsins hafa sett sig upp á móti aðild Úkraínu, eða reynt að leggja stein í götu ykkar, hversu bjartsýn ertu á aðild að því virtu að hún krefst einróma samþykkis sambandsríkja?

„Það er einmitt mjög mikilvægt að það sé einróma samþykki, að það sé samstaða. Því að það sem Rússland vill gera er að tvístra ríkjum innan sambandsins og leysa upp eininguna sem þar ríkir, og einnig yfir Atlantshafið.

Við erum að vinna með þessum tveimur ríkjum, við erum að vinna með nágrönnum okkar. Sambandið við þá er kannski ekki auðvelt en það er mikilvægt. Við erum að reyna að fá þá til að styðja Úkraínu.“

Hún tekur fram að Úkraínumenn kunni mjög að meta stuðning Íslands, sem hefur verið með margvíslegum hætti eins og greint var frá fyrr í mánuðinum.

Fordæmalausar endurbætur

Spurð út í endurbætur á stjórnkerfinu vegna aðildarviðræðna, þar á meðal til að sporna gegn spillingu, segir hún það fordæmalaust hve langt stjórnvöld landsins hafi gengið til að mæta endurbótakröfu Evrópusambandsins.

„Ekki síst í ljósi þess að á sama tíma höfum við verið að berjast við Rússland. Á okkur falla sprengjur alla daga. Við erum bókstaflega að há baráttu til að lifa af. Og við ætlum samt að binda enda á spillingu, herða lög og reglu, styrkja dómskerfið.

Þetta er ekki auðvelt á stundum. En þetta er eitt skilyrða fyrir inngöngu í sambandið og okkur miðar mjög vel.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert