Hamdans Ballal, palestínsks leikstjóra Óskarsverðlaunaheimildarmyndarinnar No Other Land, er saknað eftir að ísraelskir hermenn réðust á hann í gær í þorpinu Susiya á Vesturbakkanum.
AFP greinir frá og segir að í kjölfar árásarinnar hafi leikstjórinn verið numinn á brott.
Yuval Abraham, meðleikstjóri hans, hefur birt röð færslna um málið á miðlinum X. Þar segir hann Ballal hafa verið stórslasaðan með blæðandi áverka á höfði og maga.
Þá greindi Associated Press frá því að aðgerðasinnar frá Center for Jewish Nonviolence hefðu lýst því hvernig hópur 10-20 grímuklæddra manna hefði ráðist á Ballal og aðgerðasinna gyðinga með vopnum, grjóti og prikum, mölvað rúður í bílum og skorið á dekk.
Þrjár vikur eru síðan No Other Land vann Óskarsverðlaun sem besta heimildarmyndin en þar notuðu leikstjórarnir Abraham, Ballal, Basel Adra og Rachel Szor tækifærið til að vekja athygli á eyðileggingunni á Gasa.
Ítarlega er fjallað um myndina á menningarsíðum Morgunblaðsins í dag en þar ræðir blaðamaður við tónskáld hennar, Julius Pollux Rothlaender. Myndin verður sýnd í Bíó Paradís undir lok mánaðar.