Hamdan Ballal, palestínski leikstjóri Óskarsverðlaunamyndarinnar No Other Land, er kominn í leitirnar eftir að hann var numinn á brott af ísraelskum hermönnum í gær.
Samstarfsmaður Ballal, Basel Adra, greinir frá þessu í færslu á X.
Meðleikstjóri Ballal, Yuval Abraham, birti færslu á X í gær þar sem hann sagði að ísraelskir hermenn hefðu ráðist á Ballal í þorpinu Susiya á Vesturbakkanum í gær og numið hann á brott í kjölfarið.
Samkvæmt ísraelska hernum var Ballal handtekinn fyrir að hafa kastað grjóti í átt að ísraelskum borgurum.
Þrjár vikur eru síðan No Other Land vann Óskarsverðlaun sem besta heimildamyndin en þar er vakin athygli á eyðileggingunni á Gasasvæðinu.
Ítarlega er fjallað um myndina á menningarsíðum Morgunblaðsins í dag en þar ræðir blaðamaður við tónskáld hennar, Julius Pollux Rothlaender. Myndin verður sýnd í Bíó Paradís undir lok mánaðar.