Fjölmargir Palestínumenn komu saman í norðurhluta Gasa í dag til að mótmæla Hamas-hryðjuverkasamtökunum og kröfðust þess að stríðinu við Ísrael yrði hætt.
Eru þetta stærstu mótmælin gegn samtökunum síðan hryðjuverkaárásin var gerð á Ísrael 7. október árið 2023.
Þúsundir manna gengu um götur í Beit Lahia í norðurhluta Gasa í dag og hrópuðu: „Við viljum binda enda á stríðið.“
Mótmælin koma í kjölfar þess að á sunnudag gaf heilbrigðisráðuneytið á Gasa, sem er undir stjórn Hamas, út að yfir 50.000 manns hefðu látið lífið í átökunum og virðist engin langtímalausn í sjónmáli.
AFP-fréttastofan ræddi við nokkra mótmælendur á svæðinu en enginn þeirra vildi koma fram undir nafni af ótta við hefndaraðgerðir. Sögðu mótmælendurnir að þeir væru orðnir þreyttir á núverandi ástandi og vildu að samtökin færu frá völdum.
Mahmúd Abbas, forseti palestínsku heimastjórnarinnar og leiðtogi Fateh-samtakanna, sagði um helgina að nauðsynlegt væri fyrir Hamas að láta af völdum á Gasaströndinni til þess að hægt væri að tryggja tilveru Palestínumanna á Gasa.
Hamas-samtökin hafa verið við völd á Gasa frá árinu 2007.
Þegar er byrjað að skipuleggja áframhaldandi mótmæli á morgun á samfélagsmiðlinum Telegram.
„Látið rödd ykkar heyrast, látið þá vita að Gasa er ekki þögul, og það er fólk sem mun ekki sætta sig við að vera útrýmt,“ skrifuðu skipuleggjendur mótmælanna í færslu á Telegram.