Nægt plast til að fylla maga 18 milljóna hvala

Vaxandi áhyggjur hafa verið af áhrifum örplasts á heilsufar, en …
Vaxandi áhyggjur hafa verið af áhrifum örplasts á heilsufar, en vísindamenn tengja örplast í auknum mæli við krabbamein, ófrjósemi, hjartasjúkdóma og fleira. AFP/Jim Watson

Áætlað er að árið 2030 muni fyrirtækið Coca-Cola bera ábyrgð á 602.000 tonnum af plastúrgangi sem berst í höf heimsins á hverju ári, samkvæmt nýrri rannsókn sem gefin var út í dag af Oceana-samtökunum. Er það nægt plast til að fylla maga 18 milljóna hvala.

Vaxandi áhyggjur hafa verið af áhrifum örplasts á heilsufar, en vísindamenn tengja örplast í auknum mæli við krabbamein, ófrjósemi, hjartasjúkdóma og fleira.

„Coca-Cola er langstærsti framleiðandi og seljandi drykkja í heiminum,“ sagði Matt Littlejohn, sem stýrir herferðum Oceana gegn mengun stórra fyrirtækja.

„Þess vegna skipta þeir miklu máli þegar kemur að áhrifum alls þessa á hafið.“

Lausnin liggur í endurnýtingu umbúða

Coca-Cola er meðal þeirra vörumerkja sem leggja hvað mest til plastmengunar í heiminum, á eftir PepsiCo, Nestle, Danone og Altria, samkvæmt rannsókn sem birt var í ritrýnda tímaritinu Science Advances árið 2024.

Rannsókn Oceana byggir á opinberum gögnum Coca-Cola frá árinu 2018 til ársins 2023 ásamt spám um söluvöxt og komst að þeirri niðurstöðu að líklegt er að plastnotkun fyrirtækisins fari yfir 4,13 milljónir tonna árlega árið 2030.

Til að áætla hversu mikið af því plasti mun ná til vatnavistkerfa beittu vísindamenn ritrýndri aðferð sem þróuð var af alþjóðlegu teymi vísindamanna og birt í fræðitímaritinu Science árið 2020. Var það þeirra mat að fyrirtækið komi til með að bera ábyrgð á 602.000 tonnum af plasti í höfum heimsins, sem jafngildir um 220 milljörðum hálfs lítra flaska.

Oceana segir lausnina liggja í því að endurnýta umbúðir – hvort sem það væru glerflöskur, sem hægt er að endurnýta 50 sinnum, eða þykkari PET plastílát, sem hægt er að endurnýta 25 sinnum.

Coca-Cola er meðal þeirra vörumerkja sem leggja hvað mest til …
Coca-Cola er meðal þeirra vörumerkja sem leggja hvað mest til plastmengunar í heiminum, samkvæmt rannsókn sem birt var í ritrýnda tímaritinu Science Advances árið 2024. AFP/Jim Watson

Neytendur breyti venjum sínum

Coca-Cola gaf út að endurnýtanlegar umbúðir væru „meðal áhrifaríkustu leiða til að draga úr sóun“ árið 2022, og hét því að ná 25% endurnýtanlegum umbúðum árið 2030.

Loforðið var þó hljóðlega tekið út af nýjustu sjálfbærniáætlun fyrirtækisins, sem gefin var út í desember. Þess í stað er áhersla nú lögð á að auka endurunnið efni í umbúðum og aukið söfnunarhlutfall. Mesta áherslan er þó lögð á áskoranir við endurvinnslu á gosflöskum og að neytendur breyti venjum sínum.

Umhverfisverndarsinnar hafa varað gegn því að treysta of mikið á endurvinnslu og halda því fram að það sé oft til þess fallið að varpa sök á neytendur frekar en að taka á rót vandans.

„Endurvinnsla er frábær, ekki misskilja mig,“ sagði Littlejohn, „en ef þú ætlar að nota endurunnið plast til að framleiða meira einnota plast, þá er það vandamál.“

Umhverfisverndarsinnar hafa varað við því að treysta of mikið á …
Umhverfisverndarsinnar hafa varað við því að treysta of mikið á endurvinnslu og halda því fram að það sé oft til þess fallið að varpa sök á neytendur frekar en að taka á rót vandans. AFP/Jim Watson

Coca-Cola geti vísað veginn fyrir önnur fyrirtæki

Plastframleiðsla byggir á olíu, sem gerir plastnotkun fyrirtækja að beinum áhrifavaldi loftslagsbreytinga.

Vonin er þó ekki úti. Coca-Cola rekur nú þegar stórfelld endurfyllanleg kerfi í nokkrum löndum, þar á meðal Brasilíu, Þýskalandi, Nígeríu og hlutum Bandaríkjanna, eins og suðurhluta Texas.

„Þeir hafa stærstu endurnýtanlegu innviði allra drykkjarfyrirtækja og getu til að stækka þá enn frekar og vísa veginn fyrir það sem eftir er af atvinnugreininni,“ sagði Littlejohn.

Í yfirlýsingu til AFP sagði talsmaður Coca-Cola að á meðan viðleitni fyrirtækisins beinist nú að því að nota meira endurunnið efni og bæta söfnunarkerfi, hefur fyrirtækið unnið að og er staðráðið í að auka möguleika á endurfyllanlegum umbúðum, það starf muni halda áfram sem hluti af neytendamiðaðri stefnu fyrirtækisins.

„Þeir hafa stærstu endurnýtanlegu innviði allra drykkjarfyrirtækja og getu til …
„Þeir hafa stærstu endurnýtanlegu innviði allra drykkjarfyrirtækja og getu til að stækka þá enn frekar og vísa veginn fyrir það sem eftir er af atvinnugreininni,“ sagði Littlejohn. AFP/Jim Watson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka