The Atlantic birtir Signal-samskiptin

Ritstjórn The Atlantic hefur ákveðið að birta samskipti sem fóru fram í spjallhópi á forritinu Signal milli háttsettra bandarískra ráðgjafa og ráðherra daginn sem Bandaríkjamenn gerðu loftárásir á Húta í Jemen.

Greint hefur verið frá því að Jeffrey Goldberg, ritstjóra The Atlantic, var óvart bætt í spjallhópinn, sem bar heitið „Houthi PC Small Group“. Um var að ræða stýrihóp æðstu embættismanna í varnarmálum Bandaríkjanna. Svo virðist sem Mike Waltz þjóðaröryggisráðgjafi hafi verið sá sem bauð Goldberg í hópinn. 

Goldberg fjallaði um atvikið í grein sem The Atlantic birti á mánudag og í dag hefur ný grein verið birt undir yfirskriftinni: Hér eru hernaðaraðgerðirnar sem ráðgjafar Trumps deildu á Signal.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur sagt að mistök hafi verið …
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur sagt að mistök hafi verið gerð en að engar viðkvæmar upplýsingar hafi verið birtar. AFP

Sögðu að engar viðkvæmar upplýsingar hefðu verið í spjallinu

Embættismennirnir sátu fyrir svörum bandarískra öldungadeildarþingmanna í gær þar sem fjallað var um málið og þeir m.a. sakaðir um afglöp í starfi. Ríkisstjórnin og Trump Bandaríkjaforseti hafa gert lítið úr málinu og talað um það sem minni háttar mistök. Pete Hegseth, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, sagði að enginn hefði birt viðkvæmar upplýsingar um hernaðaraðgerðir. 

Á þinginu í gær voru þau Tulsi Gabbard, sem er yfirmaður leyniþjónustustofnana Bandaríkjanna, og John Ratcliffe, yfirmaður CIA, spurð út í Signal-samtalið. Þar sagði Gabbard við nefndarmenn í leyniþjónustunefnd öldungadeildarinnar að engu trúnaðarmáli hafi verið deilt í þessum samskiptum.

Ratcliffe tók í svipaðan streng. „Samskipti mín í Signal-spjallhópnum voru algjörlega heimil og lögleg og innihéldu ekki trúnaðarupplýsingar.“

Trump Bandaríkjaforseti var einnig spurður um sama mál síðdegis í gær og þá sagði hann: „Þetta voru ekki trúnaðarupplýsingar.“

Pete Hegseth, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna.
Pete Hegseth, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. AFP

The Atlantic bregst við

Ritstjórn The Atlantic segir að yfirlýsingar stjórnvalda setji blaðið í klípu. Hún bendir á að í upphaflegri frétt The Atlantic um Signal-spjallið hafi ákveðnum upplýsingum í sambandi við vopn og tímasetningu árása, sem þeir hafi séð í skilaboðunum, verið haldið leyndum. Ritstjórnin segir að það sé regla að birta ekki upplýsingar um hernaðaraðgerðir ef þær gætu mögulega stofnað lífi Bandaríkjamanna í hættu. Þess vegna hafi blaðið fremur kosið að lýsa eðli upplýsinganna sem deilt var án þess þó að fara í öll smáatriði.

„Yfirlýsingar Hegseth, Gabbard, Ratcliffe og Trump - ásamt fullyrðingum fjölmargra embættismanna stjórnarinnar um að við séum að ljúga um innihald Signal-skilaboðanna - hafa leitt til þess að fólk eigi að sjá skilaboðin svo það geti dregið sínar eigin ályktanir. Það eru skýrir almannahagsmunir fólgnir í því að birta þær upplýsingar sem ráðgjafar Trumps hafa birt á óöruggum samskiptarásum, sérstaklega þar sem háttsettir embættismenn stjórnarinnar reyna nú að gera lítið úr mikilvægi skilaboðanna sem deilt var,“ segir í umfjöllun The Atlantic.

Þjóðaröryggisráðgjafinn Mike Waltz hefur sagt að hann beri fulla ábyrgð …
Þjóðaröryggisráðgjafinn Mike Waltz hefur sagt að hann beri fulla ábyrgð á því að blaðamanninum hafi óvart verið bætt við spjallhópinn. AFP

Ógnar þjóðaröryggi

Þar segir enn fremur að sérfræðingar hafi ítrekað bent á að notkun Signal-spjalls fyrir svo viðkvæmar umræður ógni þjóðaröryggi.

„Nefna má sem dæmi að Goldberg fékk upplýsingar um árásirnar tveimur klukkustundum áður en áætlað var að hefja sprengjuárásir á staðsetningar Húta. Ef þessar upplýsingar - sérstaklega nákvæmar tímasetningar þegar bandarískar flugvélar voru að hefja sig til flugs til Jemen - hefðu lent í röngum höndum á þessu mikilvæga tveggja klukkustunda tímabili, hefðu bandarískir flugmenn og annað bandarískt starfsfólk getað verið í enn meiri hættu en þeir standa vanalega frammi fyrir. Ríkisstjórn Trumps heldur því fram að hernaðarupplýsingarnar í þessum skilaboðum hafi ekki verið trúnaðarmál – eins og þær eru alla jafna – þó að forsetinn hafi ekki útskýrt hvernig hann komst að þeirri niðurstöðu.“

Tulsi Gabbard, sem er yfirmaður leyniþjónustustofnana Bandaríkjanna, og John Ratcliffe, …
Tulsi Gabbard, sem er yfirmaður leyniþjónustustofnana Bandaríkjanna, og John Ratcliffe, yfirmaður CIA, voru spurð spjörunum úr á fundi leyniþjónustunefndar þingsins í gær. AFP

Hvíta húsið mótmælti birtingunni

Ritstjórn The Atlantic hafði samband við marga embættismenn í stjórn Trumps og spurði hvort þeir gerðu athugasemdir við birtingu samskiptanna í heild, í ljósi þess að ekki væri um trúnaðarupplýsingar að ræða.

Ritstjórnin fékk tölvupóst seint í gærkvöldi frá Karoline Leavitt, sem er fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins. Þar er ítrekað að engar trúnaðarupplýsingar hafi verið birtar í þessu spjalli en um leið var birtingunni mótmælt.

Talsmaður CIA hafði einnig samband og óskaði eftir því að nafn yfirmanns starfsliðs CIA yrði ekki birt opinberlega í umfjölluninni.

Öldungadeildarþingmaðurinn Mark Warner, sem er demókrati, tók þátt í að …
Öldungadeildarþingmaðurinn Mark Warner, sem er demókrati, tók þátt í að spyrja embættismennina út í Signal-samtalið. AFP

Hér má lesa greinina í heild sinni og sjá þau samskipti sem ritstjóri The Atlantic var hluti af.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka