Vörubílstjórinn Lee Seung-joo var að aka í gegnum Andong-fjöllin í Suður-Kóreu þegar gróðureldar breiddu hratt úr sér, umluktu svæðið í ljósum logum og breyttu því í „bókstaflegt helvíti“.
„Þetta var eins og heimsendir,“ sagði hinn 39 ára gamli Lee í samtali við AFP-fréttaveituna. Miklir þurrkar höfðu verið á svæðinu áður en eldarnir brutust út.
„Fjallið sem brann minnti bókstaflega á helvíti,“ bætti hann við.
Tugþúsundir íbúa í suðausturhluta landsins urðu að flýja undan gróðureldunum sem hafa brunnið samfleytt í fimm daga. Mikill þurrkur og hvassviðri gerir aðstæður á vettvangi erfiðar.
Mikill glundroði skapaðist á hluta þjóðvegar 7, sem er aðalþjóðvegurinn á austurströndinni, þegar eldarnir náðu fólki sem sat fast í umferðarteppu þegar það var að reyna forða sér í öruggt skjól.
„Eldkúlur féllu til jarðar eins og rigning á milli bílanna sem sátu fastir, og kveiktu í bílum,“ sagði einn sjónarvottur við suðurkóreska fjölmiðla
„Ökumenn sluppu naumlega úr brennandi bílunum - það var algjör ringulreið.“
Að minnsta kosti 24 manns hafa látist af völdum eldanna, sumir þegar þeir voru að forða sér.
Han Duck-soo, starfandi forseti landsins, sagði að eldarnir hefðu valdið „fordæmalausu tjóni“ og varaði við því að ástandið gæti enn versnað.