Karl III Bretakonungur var í dag lagður inn á spítala út af aukaverkunum vegna krabbameinsmeðferðar. Dvölin var stutt en búið er að útskrifa hann.
Breska ríkisútvarpið greinir frá.
Vegna aukaverkana þarf hann að sleppa nokkrum viðburðum sem hann ætlaði að sækja á morgun.
„Á morgun átti hann að sinna fjórum opinberum verkefnum í Birmingham og er mjög svekktur að missa af þeim að þessu sinni,“ segir í yfirlýsingu frá bresku konungshöllinni.
„Hann vonast innilega til þess að hægt verði að endurskipuleggja þetta þegar fram líða stundir og biðst innilega afsökunar gagnvart öllum þeim sem lögðu svo hart að sér til að gera fyrirhugaða heimsókn mögulega.”
Fram kemur einnig að hann hafi átt fundi með þremur sendiherrum í dag en að spítalainnlögnin hafi haft áhrif á þá fundi.
Greint var frá því í febrúar á síðasta ári að konungurinn hefði greinst með krabbamein.