Mestu gróðureldar frá upphafi í S-Kóreu

Tala látinna í gróðureldunum í Suður-Kóreu er komin í 26.
Tala látinna í gróðureldunum í Suður-Kóreu er komin í 26. AFP

Gróðureldarnir sem hafa logað í suðausturhluta Suður-Kóreu síðustu daga eru þeir mestu í landinu frá upphafi að sögn yfirvalda.

Tala látinna er komin upp í 26 en meira en tugur elda kviknaði um síðustu helgi og hafa 27 þúsund manns neyðst til að yfirgefa heimili sín. Átta eru alvarlega slasaðir og 22 hafa orðið fyrir minniháttar meiðslum í hamförunum.

Flestir hinna látnu voru heimamenn, en að minnsta kosti þrír slökkviliðsmenn fórust og flugmaður í slökkviþyrlu lést þegar flugvél hans hrapaði á fjallasvæði, að sögn embættismanna.

„Skógareldurinn breiðist hratt út,“ segir Lee Han-kyung, yfirmaður almannavarna í S-Kóreu. Hann segir að yfir 350 kílómetra landsvæði hafi orðið eldi að bráð frá því á laugardaginn sem er meira en tíu þúsund hektarar umfram það svæði sem varð fyrir áhrifum skógareldanna á austurströnd landsins árið 2000.

Hann segir að rekja megi upptök gróðureldanna til loftlagsbreytinga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert