Átján ára gamall maður sem handtekinn var í Huddersfield í Bretlandi í síðustu viku tengist máli sem norska rannsóknarlögreglan Kripos rannsakar og snýst um manndráp sem lögð höfðu verið á ráðin um í Stavanger. Sá sem handtekinn var í Bretlandi hafði tvö skotvopn í fórum sínum og telur norska lögreglan – en handtakan var framkvæmd eftir ábendingu hennar – að hann hafi einnig haft ákveðið skotmark í huga.
„Við rannsóknina á því sem við teljum að sé samkomulag um manndráp í Stavanger komumst við á snoðir um að annað dráp stæði fyrir dyrum í Bretlandi,“ segir John Ivar Johansen, lögmaður rannsóknarlögreglunnar Kripos, í fréttatilkynningu.
Í samtali við norska ríkisútvarpið NRK segir hann Kripos gruna að einn hinna handteknu í Noregi, en þar hafa nokkrar handtökur verið framkvæmdar, tengist skipulagningu dráps í Bretlandi. Tekur lögmaðurinn þó fram að rannsóknin sé skammt á veg komin, en lögreglan telji málið teygja sig til sænskra glæpagengja.
Kveður hann málið sýna hve mikilvægt alþjóðasamstarf lögreglu sé norsku lögreglunni, en 16 ára gamall piltur, sem handtekinn var á Gardermoen-flugvellinum í Noregi í síðustu viku, er grunaður um að tengjast breska málinu auk þess norska.
Alls eru fimm manns nú í haldi lögreglu vegna málsins, þar af tveir undir lögaldri, og útilokar Johansen ekki fleiri handtökur.
Kristin Kvigne forstöðumaður Kripos kveður ástæðu til að hafa áhyggjur af þróun mála í ljósi þessa máls og bendir á skýrslu stofnunarinnar um ógnir í Noregi árið 2025. Sé þetta mál gott dæmi um slíkar ógnir.
„Það er áhyggjuefni að við sjáum norska unglinga sem fengnir hafa verið til að fremja ofbeldisverk. Ég get ekki tjáð mig um rannsóknina, en Kripos hefur um árabil varað við því að sú óöld sem nú ríkir í Svíþjóð smitist yfir til Noregs,“ segir Kristin Kvigne við NRK.