Rússar skilji aðeins valdbeitingu

Vel fór á með Emmanuel Macron og Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra …
Vel fór á með Emmanuel Macron og Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra við upphaf fundarins í morgun þar sem leiðtogarnir heilsuðust með virktum. AFP/Ludovic Marin

Fundur evrópskra leiðtoga sem styðja Úkraínu stendur nú yfir í París í Frakklandi þar sem rætt er hvernig búa megi sem best um hnúta úkraínskra öryggismála í aðdraganda hugsanlegs vopnahlés. Situr Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra fundinn fyrir Íslands hönd auk þess sem Volódimír Selenskí Úkraínuforseti er þar gestur.

Meðal þess sem liggur fyrir fundinum er að greina hvers konar tryggingar fyrir öryggi Evrópuríkja sé unnt að bjóða þjóðinni stríðshrjáðu þegar vopnahlé verður að veruleika í þessu rúmlega þriggja ára langa stríði sem orðið er síðan Vladimír Pútín Rússlandsforseti skipaði herjum sínum að láta til skarar skríða í febrúarlok 2022.

Alls sækja 27 þjóðarleiðtogar Parísarfundinn auk þess sem blaðamannafundur Macrons forseta stendur fyrir dyrum nú síðdegis.

Macron býður Alexander Stubb Finnlandsforseta velkominn til fundarins í París …
Macron býður Alexander Stubb Finnlandsforseta velkominn til fundarins í París í morgun. AFP/Ludovic Marin

Rússar setja skilyrði

Viðvera evrópsks herliðs í Úkraínu hefur verið rædd sem ein hugsanlegra öryggistrygginga sem enn fremur gæti sett Rússum stólinn fyrir dyrnar með annarri innrás í kjölfar vopnahlés. Framkvæmdin hefur þó ekki verið færð út í smáatriðum, en fundurinn í París er haldinn aðeins skömmu eftir að sú yfirlýsing barst frá Hvíta húsinu í Washington að fulltrúar Rússlands og Úkraínu hefðu samþykkt drög að hugsanlegu vopnahléssamkomulagi á samningafundi með bandarískum fulltrúum í Sádi-Arabíu.

Hafa stjórnvöld í Moskvu og Kænugarði hvort tveggja staðfest þau tíðindi þótt þau fyrrnefndu hafi látið þær upplýsingar fylgja að þau hefðu sett sín skilyrði, meðal annars þau að Bandaríkin létti af viðskiptabanni sem hvíli á vörum tengdum landbúnaði í Rússlandi.

Volódimír Selenskí Úkraínuforseti brosir vongóður á fundi sem ætlað er …
Volódimír Selenskí Úkraínuforseti brosir vongóður á fundi sem ætlað er að tryggja þjóð hans öryggi í kjölfar vopnahléssamkomulags þegar af því verður. AFP/Ludovic Marin

Macron með nýjan hjálparpakka

Sagði Macron Frakklandsforseti á blaðamannafundi í París í gær að Evrópuþjóðirnar væru komnar á rekspöl með að binda endi á innrásarstríð Rússa auk þess sem hann kynnti nýjan hjálparpakka Frakklands að andvirði 2,2 milljarða evra sem jafngildir rúmum 315 milljörðum íslenskra króna.

Kvaðst Selenskí Úkraínuforseti vænta „sterkra ákvarðana“ af fundinum og klykkti út með því í ummælum sínum að Moskva skildi engin skilaboð önnur en þau sem byggð væru á valdbeitingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert