Bifreiðaframleiðandinn Volvo í Svíþjóð hefur innkallað 73.000 tvinnbifreiðar, þar af 5.000 í Noregi, vegna hættueiginleika rafhlöðu þeirra sem talin er hætta á að kvikni í. Frá þessu greinir sænska viðskiptaritið Dagens Industri auk fleiri sænskra miðla.
Hinar innkölluðu bifreiðar eru af árgerðum 2020 til 2022 og er þar um að ræða gerðirnar S60, V60, S90, V90, XC60 og XC90.
„Eigendur bifreiðanna eru beðnir um að hlaða þær ekki uns úrbætur hafa verið gerðar,“ stendur í tilkynningu frá bandarísku umferðarstofunni NHTSA.
„Innköllunin nær til ákveðinna hlaðanlegra tvinnbifreiða í 60- og 90-framleiðsluröðunum og tengist vandamáli við fullhlaðnar rafhlöður þeirra,“ segir Magnus Holst, upplýsingafulltrúi Volvo í Svíþjóð, við sænsku bílavefsíðuna Carup.
Kemur þar enn fremur fram að Volvo hafi uppgötvað gallann í kjölfar þess er eigandi einnar þeirra bifreiða, er innköllunin nær til, hafði samband við framleiðandann og tilkynnti að rafhlaðan hitnaði óeðlilega mikið. Í kjölfar rannsóknar á rafhlöðum af viðkomandi gerð ákvað Volvo að innkalla bifreiðarnar og greinir frá því að gallinn í rafhlöðunum hafi fram til þessa leitt til tveggja atvika. Engin slys hafi þó orðið á fólki svo vitað sé.