Ný rannsókn á vegum UCLA-háskólans í Kaliforníu sýnir að fólk sem tyggur um 180 tyggjó á ári gæti verið að innbyrða um 30.000 örplastsagnir. Rannsakendur vilja þó ekki vekja upp ótta.
Rannsóknin var kynnt á fundi Ameríska efnafræðifélagsins í San Diego og hefur verið send til ritrýningar.
Hún kemur fram á sama tíma og vísindamenn hafa í auknum mæli verið að finna örplastsagnir víða um heim, allt frá fjallstoppum til sjávarbotns sem og í loftinu.
Einnig hafa vísindamenn uppgötvað agnirnar í mannslíkamanum, þar á meðal í lungum, blóði og heila, sem hefur vakið upp ótta um hugsanleg áhrif á heilsu manna.
Hvernig örplastsagnir berast inn í líkama manna hefur lítið verið rannsakað og leitaði rannsóknin eftir því að sýna fram á enn eina leiðina hvernig það getur gerst, þ.e.a.s. með tyggjói.
Kemur fram að í rannsókninni hafi doktorsnemi við háskólann, Lisa Lowe, hafi tuggið sjö tyggjó frá tíu tegundum áður en gerð var svo efnagreining á munnvatni hennar.
Var þá komist að því að eitt gramm af tyggjói losaði að meðaltali 100 örplastsagnir, þótt sum hafi losað yfir 600. Því gæti fólk sem tyggur um 180 stykki á ári innbyrt 30.000 örplastsagnir.
Það fölnar þó í samanburði við margar aðrar leiðir örplastsagna inn í líkamann en að sögn Sanjay Mohanty, aðalrannsakanda rannsóknarinnar, er áætlað að einn lítri af vatni í plastflösku innihaldi að meðaltali 240.000 örplastsagnir.
„Ég vil ekki vekja upp ótta hjá fólki,“ segir Mohanty.
„Það eru engar beinar sannanir fyrir því að örplastsagnir séu skaðlegar heilsu manna.“
Rannsakendurnir prófuðu fimm tegundir af tyggjóum með gervigúmmíi, sem eru algengustu tegundirnar seldar í matvöruverslunum, og fimm tegundir af tyggjóum með náttúrulegu gúmmíi.
Segir Lowe það hafa komið á óvart að örplastsagnir fundust í ríkilegum mæli í báðum tegundum og varar jafnframt við því að fólk spýti tyggjóum sínum á gangstéttir er tyggjóin hafa verið jórtruð til fulls. Það skapi plastmengun.
Oliver Jones, efnafræðiprófessor við RMIT-háskólann í Ástralíu, segir þó í samtali við AFP-fréttaveituna að lítið magn af örplastsögnum myndi líklega fara í gegnum líkama manna án nokkurs konar áhrifa og telur ekki að unnendur jórturleðursins þurfi að hætta að njóta þess.
Þá hafa samtök sælgætisframleiðanda í Bandaríkjunum, sem er fulltrúi tyggigúmmísframleiðanda, sent frá sér yfirlýsingu þar sem vísað er í orð rannsakandanna að engin ástæða væri til þess að hafa áhyggjur og bættu við að innihaldsefni tyggigúmmís væru samþykkt af Matvæla- og lyfjaeftirliti Bandaríkjanna.