Leitaði að skrímsli en fann mann

Það gerist ekki oft að skrímslin undir rúmum barna séu …
Það gerist ekki oft að skrímslin undir rúmum barna séu raunveruleg. En þó er gott að hafa varann á. Ljósmynd/Colourbox

Barnapía í bænum Great Bend í Kansas-ríki varð fyrir heldur óskemmtilegri lífsreynslu á dögunum.

Breska ríkisútvarpið greinir frá. 

Hafði áður búið í húsinu

Þegar barn í umsjá barnapíunnar kvartaði yfir skrímsli undir rúminu, brá hún á það ráð að sýna barninu að þarna væri aðeins um ímyndun að ræða og kíkti undir rúmið. Þar blasti hins vegar við henni fullorðinn karlmaður sem hafði komið sér þar fyrir í felum. 

Kom til átaka milli barnapíunnar og mannsins, sem tókst að flýja en var handtekinn morguninn eftir nálægt heimilinu, eftir stuttan eltingaleik við lögregluna.

Reyndist maðurinn vera 27 ára og hafði áður búið í húsinu en verið síðar bannað að koma nærri eigninni með lögbanni.

Hann var færður í fangelsi og sætir nú ákæru fyrir mannrán, innbrot og líkamsárás, auk annarra brota.

Honum er nú haldið í fangelsi gegn 500.000 dollara tryggingu, sem samsvarar um 66 milljónum króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert