Norskum innviðum alvarleg hætta búin

Svona er ástand fjarskiptainnviða sums staðar í Noregi, þeir liggja …
Svona er ástand fjarskiptainnviða sums staðar í Noregi, þeir liggja einfaldlega berskjaldaðir börnum og hröfnum að leik. Ljósmynd/Nkom

Stafrænum innviðum Noregs er hætta búin. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu norsku fjarskiptastofnunarinnar Nkom sem gagnrýnir ástandið harðlega og krefst úrbóta.

Karianne Tung, ráðherra stafrænna mála í Noregi, segir að ljósleiðarakaplar víða um land séu illa varðir náttúruöflum og skemmdarverkum af hálfu mannfólks og það sama gildi víða um innviði fyrir farsímakerfið og rafmagn.

„Hvert og eitt okkar verður að vera á verði,“ segir John-Eivind Velure forstöðumaður Nkom í samtali við norska ríkisútvarpið NRK og bætir því við að fyrrnefndir kaplar séu berskjaldaðri en góðu hófi gegni.

Segir forstöðumaðurinn stöðu mála í landinu þó almennt ekki sem versta, ár hvert leggi hið opinbera í milljarðafjárfestingar til þróunar, viðbóta og styrkingar hinna stafrænu innviða.

„Okkar alvarlegasta og versta reynsla“

Meðal þess sem fram kemur í skýrslunni er að innviðir í fylkjunum Buskerud og Innlandet teljist sérstaklega viðkvæmir, það hafi óveðrið Hans til dæmis sýnt svo ekki yrði um villst í hitteðfyrra. Örar breytingar á evrópskum öryggismálum í kjölfar styrjaldar í álfunni frá febrúar 2022 að telja hafi þá ekki dregið úr kvíða vegna lífsnauðsynlegra innviða á borð við rafmagn og fjarskipti.

Í sveitarfélaginu Ål í Hallingdal urðu margir illa úti er Hans herjaði á sínum tíma. Misstu sumir heimili sín auk þess sem net- og símasamband lá niðri um lengri tíma, nokkuð sem hafði það í för með sér að illmögulegt var að senda íbúum þar aðvaranir vegna aðsteðjandi háska.

„Það var kannski okkar alvarlegasta og versta reynsla – hve ótrúlega erfitt það var að koma upplýsingum til fólks,“ segir Solveig Vestenfor bæjarstjóri við NRK, stjórnendur sveitarfélagsins hafi reynt öll tiltæk ráð, en tilviljanir hafi hreinlega ráðið því hvort skilaboðin hafi komist til viðtakenda. Íbúarnir hafi upplifað óöryggi sem vart hafi mátt búa við.

„Það sýnir okkur stöðuna,“ segir Tung stafrænuráðherra, „við erum berskjölduð fyrir óveðri og óheppilegum uppákomum. Stríðið í Úkraínu hefur sýnt okkur betur en nokkuð annað hve mikilvægt það er að innviðirnir okkar séu starfhæfir,“ segir hún enn fremur.

NRK

NRK-II (óttast um líf og heilsu fólks)

NRK-III (óveðrið hans gerði verulega skráveifu)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert