Umdeilt forsetaframboð McGregors – kjörþokkinn úr hringnum?

Conor McGregor hyggur á forsetaframboð á Írlandi. Óx honum kjörþokki …
Conor McGregor hyggur á forsetaframboð á Írlandi. Óx honum kjörþokki í hringnum? AFP

Ekki eru Írar á eitt sáttir um þá ákvörðun landa þeirra, bardagajaxlsins Conors McGregors, að bjóða sig fram til forseta landsins í næstu kosningum.

McGregor hefur marga hildina háð í hring UFC-keppninnar heimsþekktu – verið þekktari þar fyrir annað en að spara gífuryrðin í garð keppinauta sinna – og setur fjöldi Íra þar með spurningarmerki við að umdeildur bardagalistamaður færist hugsanlega upp í að vera umdeildur stjórnmálamaður á skömmum tíma.

„Í raun réttri bendir ekkert til þess að þetta verði að veruleika,“ segir Erik Mustad, Bretlandsmálasérfræðingur norska dagblaðsins VG, í samtali við blaðið í dag. Bendir hann á að til að öðlast kjörgengi til forseta á Írlandi þurfi kandídat að njóta stuðnings minnst 20 af 234 þingmönnum írska þingsins og fá fjóra af 31 sveitarstjóra landsins til þess að trúa á kjörþokka sinn. 

Muni berjast gegn innflytjendum

„Þessi skilyrði munu sýna hve alvarlega hann tekur þetta. Um það vitum við ekkert enn þá,“ segir Mustad enn fremur og bætir því við að það fyrsta sem McGregor muni berjast gegn verði innflytjendur. „Hann er mótfallinn frjálsu flæði fólks í Evrópusambandinu,“ bætir hann við.

Segir sérfræðingurinn að lokum að McGregor telji innflytjendur grafa undan írskum þjóðareinkennum og írskri þjóð.

Tíminn einn mun leiða í ljós hvernig þeim bardagaglaða farnast í kosningabaráttunni er þar að kemur – eða hvort hann bjóði sig fram.

VG

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert