Björgunarsveitarmenn fundu fyrr í dag konu á lífi í rústum Sky Villa Condominium, fjölbýlishúss í Mandalay, 30 klukkustundum eftir að öflugur jarðskjálfti að stærð 7,7 reið yfir Mjanmar.
Hinni þrítugu Phyu Lay Khaing, var bjargað úr rústunum og hún borin á börum að eiginmanni sínum, Ye Aung, sem beið með viðbragðsaðilum og fylgdi henni á sjúkrahús.
Sky Villa Condominium er meðal þeirra bygginga sem urðu verst úti í skjálftanum, sem mældist 7,7 að stærð. Á fimmta tug hefur verið bjargað en talið er að allt að 90 manns geti verið fastir undir rústunum.
Yfir 1.000 manns hafa látist í kjölfar skjálftans en fjarskiptainnviðir eru illa farnir og raunverulegt umfang hamfaranna er rétt að byrja að koma í ljós.
Þetta er stærsti skjálfti sem riðið hefur yfir landið í áratugi og Mandalay, sem er næststærsta borgin með rúmlega 1,7 milljónir íbúa, hefur orðið illa úti.