Pólski forsetaframbjóðandinn, Karol Nawrocki, hefur orðið að aðhlátursefni eftir að í ljós kom að hann fór í dulargervi fyrir nokkrum árum til að lofasama sjálfan sig í sjónvarpsviðtali. BBC greinir frá.
Í viðtalinu, sem er frá árinu 2018, kom hann fram sem hin dularfulli rithöfundur Tadeusz Batyr sem skráði líf pólsks glæpaforingja frá níunda áratugnum. Þar sem Batyr var dulnefni höfundar, sem á þeim tíma enginn vissi hver var, var andlit hans óskýrt og bar hann hatt á höfði til að þekkjast ekki.
Batyr hrósaði Nawrocki í hástert í viðtalinu, en hann er sagnfræðingur og fyrrum safnstjóri.
„Sagnfræðingurinn veitti mér virkilegan innblástur. Hann var fyrstur til að kynna sér skipulagða glæpastarfsemi á kommúnistaárunum í Póllandi,“ sagði Batyr meðal annars í viðtalinu.
Það sem gerir málið enn vandræðalegra er að Nawrocki sagði í færslu á samfélagsmiðli á svipuðum tíma að hann hefði hitt höfundinn. Sagði hann Batyr hafa leitað til sín og óskað eftir leiðsögn.
„Ég eyddi nokkrum árum í að kynna mér skipulagða glæpi svo höfundurinn Tadeusz Batyr setti sig í sambandi við mig til að fá leiðsögn,“ segir í færslunni sem enn er aðgengileg. „Hann þakkaði mér fyrir hjálpina með því að gefa mér þessa áhugaverðu bók, sem ég mæli með,“ skrifaði Nawrocki.
Mikið hefur verið grínast með það á samfélagsmiðlum í Póllandi frá því upp komst um málið, hvort það sé Nawrocki eða Batyr sem sé í framboði til forseta.
Nawrocki virðist þó sjálfur ekki hafa miklar áhyggjur af því að blekkingar hans hafi áhrif á framboðið og hélt hann í raun leiknum áfram þegar hann var spurður út þennan klofna persónuleika.
„Dulnefni höfunda eru ekki ný af nálinni,“ sagði hann áður hann hélt áfram að hrósa sjálfum sér.
„Það var aðeins einn pólskur sagnfræðingur sem hafði hugrekki til að rannsaka skipulagða glæpastarfsemi og sá sagnfræðingur var ég. En Tadeusz Batyr hafði engar fræðilegar rannsóknir eða heimildir til að vísa í.“