Harry prins sakaður um áreitni og einelti

Harry prins og Seeiso prins hitta nemendur í Kananelo-kjarnanum fyrir …
Harry prins og Seeiso prins hitta nemendur í Kananelo-kjarnanum fyrir heyrnarlausa fyrir meira en áratug en Sentebale samtökin hafa aðstoðað kjarnann. AFP/Stephane De Sakutin

Stjórnarformaður góðgerðasamtaka sem Harry prins stofnaði fyrir tveimur áratugum sakar prinsinn um einelti og áreitni í viðtalsbút sem gerður var opinber í dag.

Í viðtali við Sky News sakar stjórnarformaðurinn prinsinn um að smána Sentebale samtökin, sem Harry stofnaði í Suður-Afríku til heiðurs móður sinni, Díönu prinsessu, en viðtalið verður sýnt á morgun.

Fyrr í vikunni sagðist Harry ætla að segja af sér sem verndari samtakanna, sem og Seeiso prins af Lesótó, að sögn eftir erfiðan ágreining milli trúnaðarmanna og stjórnarformannsins Sophie Chandauka.

Í sameiginlegri yfirlýsingu á þriðjudag sögðu þeir að ekki væri hægt að plástra samband þeirra við Chandauka og kröfðust afsagnar hennar.

Engin vísbending um slíkt

Chandauka neitaði að segja af sér og sakar nú Harry um að hafa sent frá sér fréttatilkynningu skaðlega samtökunum án þess að upplýsa sig sem stjórnarformanna eða aðra stjórnendur Sentebale samtakanna.

„Þetta er dæmi um áreitni og einelti á stórum skala,“ er haft eftir Chandauka.

Fyrrverandi stjórnarmaður, Kelello Lerotholi, segir hins vegar við bresku fréttastofuna að hann kannist ekki við ásakanir Chandauka.

„Ég get í hreinskilni sagt að á þeim fundum sem ég sat var engin vísbending um slíkt.“

„Ekki gleyma mér“

Sentebale samtökin voru stofnuð árið 2006 til að hjálpa ungu fólki sem er smitað af HIV og alnæmi í Lesótó og síðar í Bótsvana. Samtökin voru stofnuð til heiðurs Díönu prinsessu.

Harry valdi nafnið Sentebale á samtökin til að heiðra móður sína, en orðið merkir „ekki gleyma mér“ á sesotho-tungumálinu og er einnig notað sem kveðja.

Ekki er fyllilega ljóst hvað liggur að baki ásökununum en Chandauka hefur sagt að hún hafi verið gerð að skotmarki eftir að hún hafi komið á framfæri áhyggjum sínum af stjórnunarháttum samtakann, auk ásakana um áreitni, kvenfyrirlitningu og kynþáttafordóma.

Hin Simbabveska lögfræðimenntaða Chandauka segist hafa tilkynnt trúnaðarmenn samtakanna til breskra yfirvalda og segist munu sækja mál sitt fyrir æðri dómstólum einkamála í London (High Court of Justice).

Harry og Seeiso segjast einnig munu ræða við yfirvöld í Bretlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka