Heimsækir Grænland til að tryggja samheldni

Frederiksen telur mikilvægt að heimsækja sem fyrst nýjan formann landsstjórnar …
Frederiksen telur mikilvægt að heimsækja sem fyrst nýjan formann landsstjórnar Grænlands. AFP/Ludovic Marin

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, heldur í tveggja daga heimsókn til Grænlands í næstu viku. Tilgangur heimsóknarinnar er að efla samheldni landanna tveggja, að fram kemur í fréttatilkynningu frá danska forsætisráðuneytinu.

Danska ríkisútvarpið greinir frá.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur ítrekað lýst því yfir að nauðsynlegt sé fyrir Bandaríkjamenn að öðlast yfirráð yfir Grænlandi til að tryggja bæði innanríkis- og alþjóðaöryggi.

Ítrekaði hann þá skoðun sína í gær, á svipuðum tíma og J.D Vance, varaforseti Bandaríkjanna, heimsótti Grænland ásamt konu sinni. 

Mótmælt fyrir utan Bandaríska sendiráðið

Þau hjónin heimsóttu Pituffik-geimherstöðina á norðvesturhluta eyjarinnar, þar sem Vance hélt blaðamannafund þar sem hann sagði meðal annars að Danir hefðu ekki gert nóg til að tryggja öryggi Grænlendinga.

Frederik­sen hefur sagt að ummæli Vance séu ekki boðleg. „Í mörg ár höf­um við staðið við hlið Banda­ríkja­manna í mjög erfiðum aðstæðum,“ sagði hún í yfirlýsingu til BBC í dag.

„Þess vegna er þetta ekki rétt leið fyr­ir vara­for­set­ann að vísa til Dan­merk­ur,“ sagði hún jafnframt.

Þá var mótmælt fyrir utan bandaríska sendiráðið í Kaupmannahöfn i dag.


Mikilvægt að fara í heimsókn sem fyrst

Í heimsókn sinni mun Frederiksen hitta Jens-Frederik Nielsen, nýjan formann landsstjórnar Grænlands, ásamt því að funda með nýrri ríkisstjórn.

„Á Grænlandi er nýyfirstaðið gott lýðræðislegt ferli og breið samsteypustjórn hefur verið mynduð. Það er mikilvægt fyrir mig að fara sem fyrst í heimsókn og heilsa upp á nýjan formann landsstjórnar,“ er haft eftir Frederiksen í fréttatilkynningunni.

„Ég ber mikla virðingu fyrir því hvernig grænlendingar og grænlenskir stjórnmálamenn hafa tekist á við mikið álag síðustu mánaða. Sú staða kallar á samheldni þvert á flokka og þvert á ríkasamband, með virðingu og jafnræði að leiðarljósi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka