Heimsókn Vance leiddi til ýmissa viðbragða

J.D. Vance, varaforseti Bandaríkjanna, hefur sakað Dani um að hafa …
J.D. Vance, varaforseti Bandaríkjanna, hefur sakað Dani um að hafa gert Grænland berskjaldað fyrir innrásum Kína og Rússlands. AFP/Jim Watson

Yfirgnæfandi meirihluti Grænlendinga er andvígur hugmyndinni um að verða hluti af Bandaríkjunum, samkvæmt skoðanakönnun sem gerð var í janúar. Embættis- og fræðimenn hafa deilt skoðunum sínum á heimsókn Bandaríkjamanna til Grænlands. Þá sagði J.D. Vance, varaforseti Bandaríkjanna, Danmörku ekki hafa gert nóg fyrir öryggi Grænlendinga. BBC greinir frá.

Friðrik Danakonungur hefur einnig hafnað hugmyndum Bandaríkjamanna. „Við lifum í breyttum veruleika,“ skrifaði konungurinn á samfélagsmiðla.

„Það ætti ekki að vera neinn vafi á því að ást mín til Grænlands og tengsl mín við Grænlendinga eru ósnortin.“

Heimsókn Vance

Heimsókn Bandaríkjamanna til Grænlands var upphaflega sögð „menningarferð“ eiginkonu Vance, Ushu, þar sem hún myndi horfa á hundasleðakeppni. Aftur á móti breyttist heimsóknin töluvert, vegna öryggisáhyggna vegna fyrirhugaðra mótmæla.

Nýtt fyrirkomulag fól í sér að hjónin eyddu einungis nokkrum klukkustundum á Grænlandi. Þau heimsóttu aðeins geimstöðina Pituffik og eldflaugavarnarstöð í afskekktum hluta eyjunnar, um 1.500 kílómetra frá höfuðborginni Nuuk, ásamt öðrum embættismönnum Bandaríkjanna.

Hitastigið í Pituffik var -19 gráður þegar á heimsókninni stóð.

Hjónin eyddu aðeins nokkrum klukkustundum á Grænlandi og heimsóttu Pituffik …
Hjónin eyddu aðeins nokkrum klukkustundum á Grænlandi og heimsóttu Pituffik geimstöðina, eldflaugavarnarstöð í afskekktum norðurhluta eyjunnar, um 1.500 km frá höfuðborginni Nuuk, ásamt öðrum embættismönnum Bandaríkjanna. AFP/Jim Watson

Í heimsókn sinni í Pituffik-geim­her­stöðina dró Vance úr nýlegum hótunum Donalds Trump Bandaríkjaforseta um að yfirtaka eyjuna með hervaldi og hvatti þess í stað Grænlendinga til að slíta tengslin við Danmörku, sem hefur stjórnað eyjunni í meira en 300 ár.

Hann sakaði Dani um að hafa ekki fjárfest nægilega miklu í varnarmálum eyjunnar, þannig hafi þeir gert Grænland berskjaldað fyrir meintum innrásum Kína og Rússlands. Hvatti hann þá Grænlendinga til að „gera samning“ við Bandaríkin.

„Öryggi þeirra er svo sannarlega öryggi okkar“

Vance sagði nauðsynlegt að halda Grænlandsbúum öruggum fyrir innrásum frá Rússlandi, Kína og öðrum þjóðum, án þess að veita frekari upplýsingar.

Hann nefndi Rússland og Kína sérstaklega vegna áhuga landanna á leiðum og jarðefnum á svæðinu, þar sem talið er að 57.000 íbúa eyjan búi yfir miklum ónýttum jarðefna- og olíubirgðum.

„Við teljum að okkur geta náð fram samningum, að hætti …
„Við teljum að okkur geta náð fram samningum, að hætti Donald Trump, til að tryggja öryggi þessa svæðis,“ sagði Vance. AFP/Jim Watson

Í ummælum sínum reyndi Vance að fullvissa íbúa Grænlands um að Bandaríkin myndu ekki beita hervaldi til að taka eyjuna frá Danmörku. Þess í stað hvatti hann Grænlendinga til að tileinka sér „sjálfsákvörðunarrétt“ og slíta tengslin við Danmörku, sem hefur stjórnað svæðinu síðan 1721.

„Við teljum að okkur geta náð fram samningum, að hætti Donalds Trumps, til að tryggja öryggi þessa svæðis,“ sagði Vance.

„Við vonum að þeir velji að eiga í samstarfi við Bandaríkin, því við erum eina þjóðin á jörðinni sem mun virða fullveldi þeirra og virða öryggi þeirra,“ sagði hann og bætti við: „Öryggi þeirra er svo sannarlega öryggi okkar.“

Engin áform um að auka herviðveru

Varaforsetinn sagði Bandaríkin ekki hafa nein áform eins og er um að auka viðveru hersins á Grænlandi, en þau myndu fjárfesta meira, þar á meðal í flotaskipum og ísbrjótum.

Skila­boð okk­ar til Dan­merk­ur eru ein­föld: Þið hafið ekki sinnt fólk­inu á Græn­landi nægi­lega vel. Þið hafið fjár­fest of lítið í fólki Græn­lands og ör­ygg­is­upp­bygg­ingu þessa ótrú­lega og fal­lega lands,“ sagði Vance.

Varaforsetinn sagði Bandaríkin ekki hafa nein áform eins og er …
Varaforsetinn sagði Bandaríkin ekki hafa nein áform eins og er um að auka viðveru hersins á jörðum Grænlands, en þau myndu fjárfesta meira fjármagni, þar á meðal flotaskipum og ísbrjótum. AFP/Jim Watson

Á meðan á þessu stóð sagði Donald Trump Bandaríkin þurfa á Grænlandi að halda til að tryggja „frið alls heimsins“ og að vatnaleiðir þess hefðu „kínversk og rússnesk skip út um allt“.

„Við þurfum Grænland, mjög mikilvægt, fyrir alþjóðlegt öryggi,“ sagði forsetinn.

„Við verðum að hafa Grænland. Þetta er ekki spurning um: „Heldurðu að við getum verið án þess?“ Við getum það ekki.“

Forsætisráðherra Danmerkur um ummæli Vance

Trump bætti við að Danmörk og Evrópusambandið skildu ástandið „og ef þau gera það ekki verðum við að útskýra það fyrir þeim“.

Í yfirlýsingu til BBC sagði Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, ummæli Vance um Danmörku ekki boðleg. „Í mörg ár höfum við staðið hlið við hlið með Bandaríkjamönnum í mjög erfiðum aðstæðum,“ sagði hún.

„Þess vegna er þetta ekki rétt leið fyrir varaforsetann að vísa til Danmerkur.“

Mette er ekki sátt með ummæli Vance.
Mette er ekki sátt með ummæli Vance. AFP/Ludovic Marin

Hún sagði Dani hafa aukið útgjöld til varnarmála verulega, en myndu auka enn frekar fjárfestingu sína með auknu eftirliti, nýjum heimskautaskipum, langdrægum drónum og gervihnattagetu.

„Við erum tilbúin – dag og nótt – til samstarfs við Bandaríkjamenn,“ sagði hún.

„Samstarf sem verður að byggja á nauðsynlegum alþjóðlegum leikreglum.“

„Nú hefur annar landnámsmaður áhuga á okkur“

Nýr forsætisráðherra Grænlands, Jens-Frederik Nielsen, sagði heimsókn Vance sýna „virðingarleysi fyrir grænlensku þjóðinni“.

Qupanuk Olsen, grænlenskur stjórnmálamaður í Naleraq-flokknum, sagði við BBC að Grænlendingar væru að taka áhuga Bandaríkjanna mjög alvarlega.

„Við erum hrædd um að verða nýlendusvæði aftur. Við höfum verið nýlenda undanfarin 300 ár undir Danmörku, okkur líður enn þannig,“ sagði Olsen.

„Nú hefur annar landnámsmaður áhuga á okkur.“

Jens-Frederik Nielsen er nýr forsætisráðherra Grænlands.
Jens-Frederik Nielsen er nýr forsætisráðherra Grænlands. AFP/Mads Claus Rasmussen

„Þetta er svolítið skrítið, mér líkar þetta ekki“

Í Nuuk, höfuðborg Grænlands, voru nokkrir viðmælendur BBC ekki hrifnir af Bandaríkjamönnum.

Í menningarmiðstöð í borginni sagði listakonan Karline Poulsen: „Það eru margar leiðir til að segja hlutina. En ég held að leið Trumps forseta sé ekki rétta leiðin.“

Kona, sem gaf aðeins nafnið Nina, sagði: „Ég hef áhyggjur [af heimsókninni]. Þetta er svolítið skrítið, mér líkar þetta ekki.“

Dóttir hennar, Anita, sagði heimsóknina hafa valdið mikilli óvissu og marga hafa áhyggjur.

Pútín segir Trump vera alvara

Frá árinu 2009 hefur Grænland haft rétt á að boða til þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði en undanfarin ár hafa sumir stjórnmálaflokkar landsins þrýst á að sá réttur verði nýttur.

Grænland stjórnar eigin innanríkismálum en ákvarðanir um utanríkis- og varnarmál eru teknar í Danmörku. Fimm af sex stærstu flokkunum sem tóku þátt í kosningunum í þessum mánuði eru hlynntir sjálfstæði frá Danmörku, en þeir eru ósammála um hvenær og hvernig megi ná því fram.

Trump kom hugmyndinni um að kaupa Grænland fyrst á yfirborðið á sínu fyrsta kjörtímabili – og hefur löngun hans til að eiga eyjuna aðeins vaxið með tímanum.

Vladimír Pútín Rússlandsforseti sagðist telja áætlanir Trumps um Grænland „alvarlegar“ og lýsti áhyggjum yfir því að Nato-ríkin væru í auknum mæli að tilnefna fjarlæg norðurlönd sem stökkpall fyrir hugsanleg átök.

Prófessor um öryggi á norðurslóðum

Troy Bouffard, prófessor við háskólann í Alaska sem sérhæfir sig í öryggi á norðurslóðum, sagði við blaðamann BBC að Trump styðjist við viðskiptavit sitt til að ná því sem hann vill á svæðinu, frekar en landstjórnarmál eða diplómatíu.

„Ef þú hugsar þetta mál aðeins út frá diplómatískum hætti, muntu missa af öðrum valkostum sem Bandaríkin gætu haft til að loka þessum samningi, til að þrýsta á aðalleikarana til að semja eða gera málamiðlanir,“ sagði hann. Hann telji það von Bandaríkjanna að útkoman verði „mun traustara samband“ við Grænland.

Það geti hugsanlega verið gert með því að ná Dönum út úr myndinni og láta Bandaríkin koma á samstarfi sem kemur í stað Danmerkur, sagði hann.

Mögulegt væri að Bandaríkin breyti eðli samstarfsins og taki á sig einhverja ábyrgð sem hefur tilheyrt Danmörku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka