Ásakanir á hendur sænska blaðamannsins Joakim Medin, sem er í haldi í Tyrklandi fyrir meint hryðjuverk, eru „rangar,“ segir eiginkona hans, Sofie Axelsson, við blaðamann AFP.
Medin var handtekinn í Istanbúl á fimmtudag, þar sem ætlunin var að fylgjast með mótmælum í kjölfar handtöku borgarstjóra Istanbúl, Ekrem Imamoglu.
Blaðamaðurinn var fangelsaður á föstudaginn.
„Ég gat sent honum skilaboð í gegnum lögfræðinginn og ég fékk skilaboð til baka,“ sagði Axelsson. „Hann er í ágætis yfirlæti, en leiðist smá.“
Medin er sakaður af tyrkneskum yfirvöldum um aðild að hryðjuverkasamtökum og að „móðga forsetann“, Recep Tayyip Erdogan. Er hann sakaður um að hafa tekið þátt í mótmælum Verkamannaflokks Kúrdistans (PKK) í Stokkhólmi í janúar 2023 þar sem gert var grín að brúðu sem svipaði til Erdogan.
Hins vegar sagði Axelsson: „ásakanirnar eru rangar, hann er blaðamaður, ekkert annað.“
„Hann hefur greint frá landinu (Tyrklandi) í mörg ár, aðallega fjallað um lýðræði og mannréttindi,“ bætti hún við.
Medin hefur verið handtekinn við störf sín áður. Árið 2015 var hann handtekinn af sýrlenskum öryggissveitum og haldið í einangrun í viku.