„Hann er blaðamaður, ekkert annað“

Myndin sýnir tyrknesku óeirðalögregluna beita mótmælendur táragasi fyrir utan ráðhúsið …
Myndin sýnir tyrknesku óeirðalögregluna beita mótmælendur táragasi fyrir utan ráðhúsið í Istanbúl. Medin var á leiðinni að fjalla um mótmælin þegar hann var handtekinn. AFP/Kemal Aslan

Ásakanir á hendur sænska blaðamannsins Joakim Med­in, sem er í haldi í Tyrklandi fyrir meint hryðjuverk, eru „rangar,“ segir eiginkona hans, Sofie Axelsson, við blaðamann AFP.

Medin var hand­tek­inn í Istanbúl á fimmtudag, þar sem ætlunin var að fylgjast með mótmælum í kjölfar handtöku borgarstjóra Istanbúl, Ekrem Imamoglu.

Blaðamaðurinn var fangelsaður á föstudaginn.

„Ég gat sent honum skilaboð í gegnum lögfræðinginn og ég fékk skilaboð til baka,“ sagði Axelsson. „Hann er í ágætis yfirlæti, en leiðist smá.“

Sakaður um að hafa móðgað forsetann

Medin er sakaður af tyrkneskum yfirvöldum um aðild að hryðjuverkasamtökum og að „móðga forsetann“, Recep Tayyip Erdogan. Er hann sakaður um að hafa tekið þátt í mótmælum Verkamannaflokks Kúrdistans (PKK) í Stokkhólmi í janúar 2023 þar sem gert var grín að brúðu sem svipaði til Erdogan.

Hins vegar sagði Axelsson: „ásakanirnar eru rangar, hann er blaðamaður, ekkert annað.“

„Hann hefur greint frá landinu (Tyrklandi) í mörg ár, aðallega fjallað um lýðræði og mannréttindi,“ bætti hún við.

Medin hefur verið handtekinn við störf sín áður. Árið 2015 var hann handtekinn af sýrlenskum öryggissveitum og haldið í einangrun í viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka