Trump: Rekur ekki fólk „vegna falsfrétta eða nornaveiða“

Trump sagði að sér „gæti ekki verið meira sama“ ef …
Trump sagði að sér „gæti ekki verið meira sama“ ef bílaframleiðendur hækkuðu verð eftir að hann tilkynnti að hann myndi leggja 25% tolla á alla innflutta bíla. AFP/Mandel Ngan

Donald Trump Bandaríkjaforseti segist ekki ætla að reka neinn sem átti þátt í Signal-hópspjallinu þar sem blaðamaður fékk óvart aðgang að hernaðaráætlunum bandarískra yfirvalda.

Þá gæti Trump ekki verið meira sama ef bílaframleiðendur hækka verð sín í kjölfar nýrra tolla á innflutta bíla.

NBC greinir frá.

Í símaviðtali blaðamanns NBC við forsetann, sem stóð yfir í meira en 10 mínútur, ræddi Trump einnig samstarf við Grænland.

Þá gerði forsetinn lítið úr áhyggjum af því að gjörðir hans og áætlanir valdi sveiflum á Wall Street eða minnki tiltrú neytenda, og benti á skoðanakannanir sem sýna að hlutfall Bandaríkjamanna sem telja landið vera á réttri leið sé í hámarki.

„Það sem ég sé er rétt leið, röng leið. Og þetta er í fyrsta skipti í svona 40 ár þar sem við erum á réttri leið,“ sagði forsetinn.

„Gæti ekki verið meira sama“

Trump sagði að sér „gæti ekki verið meira sama“ ef bílaframleiðendur hækkuðu verð eftir að hann tilkynnti að hann myndi leggja 25% tolla á alla innflutta bíla.

Er blaðamaður NBC spurði hver skilaboð hans væru til forstjóra í bílaiðnaðinum og hvort hann hefði varað þá við verðhækkunum svaraði Trump:

„Skilaboðin eru til hamingju, ef þú framleiðir bílinn þinn í Bandaríkjunum muntu græða mikla peninga. Ef þú gerir það ekki þarftu líklega að koma til Bandaríkjanna, því ef þú framleiðir bílinn þinn í Bandaríkjunum, þá er enginn tollur.“

„Ég vona að þeir hækki verðið sitt, því ef þeir …
„Ég vona að þeir hækki verðið sitt, því ef þeir gera það mun fólk kaupa bandaríska bíla. Við eigum nóg af þeim,“ sagði forsetinn. AFP/Mandel Ngan

Þrýsti blaðamaðurinn þá á svar um hvort hann hefði sagt forstjórum að hækka ekki verð sín, eins og greint var frá í The Wall Street Journal.

„Nei, ég sagði það aldrei. Mér gæti ekki verið meira sama þótt þeir hækki verðið, því fólk ætlar að byrja að kaupa bíla sem framleiddir eru í Bandaríkjunum. Mér gæti ekki verið meira sama. Ég vona að þeir hækki verðið sitt, því ef þeir gera það mun fólk kaupa bandaríska bíla. Við eigum nóg af þeim,“ svaraði Trump. 

Eftir viðtalið hafði aðstoðarmaður forsetans samband við NBC og sagði Trump hafa sérstaklega verið að vísa til erlends bílaverðs.

Segir tollana varanlega

25% tollurinn nær einnig yfir erlenda bílavarahluti, jafnvel þótt farartækin sem þeir eru ætlaðir séu framleidd innanlands. Fyrirtæki sem flytja inn ökutæki samkvæmt samningi Bandaríkjanna, Mexíkó og Kanada (USMCA) munu fá sérstaka undantekningu þar til stjórnvöld koma á ferli til að leggja á umrædda tolla. Fram að þeim tíma verða bílavarahlutir í samræmi við USMCA áfram lausir við tolla.

Forsetinn sagði einnig að tollarnir yrðu varanlegir.

„Algjörlega, þeir eru varanlegir, vissulega. Heimurinn hefur verið að féfletta Bandaríkin síðustu 40 ár og lengur. Það eina sem við erum að gera er að vera sanngjörn, og satt að segja er ég að vera mjög örlátur," sagði Trump.

„Ég rek fólk ekki vegna falsfrétta eða nornaveiða“

Trump sagðist ekki ætla að reka neinn í kjölfar frétta um að Michael Waltz þjóðaröryggisráðgjafi hefði bætt blaðamanni við Signal-hópspjall háttsettra embættismanna Bandaríkjanna, þar sem rædd voru áform um að ráðast á Húta í Jemen fyrr í þessum mánuði.

„Ég rek fólk ekki vegna falsfrétta eða nornaveiða,“ sagði Trump og kallaði umfjöllunarefnið „falsfréttir“ í gegnum viðtalið.

Þá sagðist hann enn bera traust til Waltz og Pete Hegseth varnarmálaráðherra sem einnig var í Signalspjallinu og sendi ítarlega tímalínu yfir fyrirhugaðar árásir áður en þær urðu.

„Ég held að þetta séu bara nornaveiðar og falsfréttir, þið einblínið á þetta, en þetta eru bara nornaveiðar og það ætti ekki að tala um þetta. Þetta var gríðarlega árangursríkt. Við slógum mjög fast og mjög banvænt. Og enginn vill tala um það. Allt sem þeir vilja tala um er bull. Þetta eru falsfréttir,“ sagði hann.

Þessi ummæli Trumps koma í kjölfar þess að hann hefur staðið frammi fyrir ákalli – þar á meðal frá bandamönnum sínum – um að reka Waltz eftir að Jeffrey Goldberg, aðalritstjóri The Atlantic, greindi frá því á mánudag að sér hafi verið bætt við í spjallhóp með háttsettum embættismönnum.

Í spjallinu virtust embættismennirnir ræða áætlanir sínar um að ráðast á uppreisnarmenn Húta, sem Trump-stjórnin hefur síðan ítrekað haldið fram að hafi ekki verið trúnaðarmál.

„Ég hef ekki hugmynd um hvað Signal er. Mér er alveg sama hvað Signal er. Það eina sem ég get sagt þér er að þetta eru bara nornaveiðar og það er það eina sem pressan vill tala um, því þú hefur ekkert annað að tala um. Vegna þess að þetta hefur verið merkilegasta 100 daga forsetatíð í sögu lands okkar.“

Þjóðaröryggisráðgjafinn Mike Waltz hefur sagt að hann beri fulla ábyrgð …
Þjóðaröryggisráðgjafinn Mike Waltz hefur sagt að hann beri fulla ábyrgð á því að blaðamanninum hafi óvart verið bætt við spjallhópinn. AFP

Snýst um alþjóðlegan frið, öryggi og styrk

Forsetinn sagði einnig að hann hefði „algerlega“ átt raunverulegar samræður um að Grænland yrði hluti af Bandaríkjunum.

„Við fáum Grænland. Já, 100%,“ sagði Trump og bætti við að það væri góður möguleiki á að gera það án hervalds, en sagði einnig: „Ég tek ekkert af borðinu“.

Þessi fullyrðing kemur degi eftir að J. D. Vance, varaforseti Bandaríkjanna, heimsótti Grænland ásamt eiginkonu sinni, Ushu, og ræddi við þjónustufulltrúa í Pituffik geimstöðinni, geimherstöð Bandaríkjanna á norðvesturströnd Grænlands.

Á meðan hann var þar sagði Vance: „Skila­boð okk­ar til Dan­merk­ur eru ein­föld. Þið hafið ekki sinnt fólk­inu á Græn­landi nægi­lega vel.“

JD Vance, varaforseti Bandaríkjanna, kemur um borð í Air Force …
JD Vance, varaforseti Bandaríkjanna, kemur um borð í Air Force Two eftir að hafa heimsótt Pituffik geimstöð Bandaríska hersins á Grænlandi 28. mars 2025. AFP/Jim Watson

Spurður hvaða skilaboð það myndi senda til Rússlands og umheimsins að eignast Grænland svaraði Trump:

„Ég hugsa ekki beint út í það. Mér er eiginlega alveg sama. Grænland er allt annað mál, allt öðruvísi. Það snýst um alþjóðlegan frið. Alþjóðlegt öryggi og styrk.

Það sigla skip utan við Grænland, frá Rússlandi, frá Kína og frá mörgum öðrum stöðum, og við ætlum ekki að leyfa hlutum að gerast sem verða – sem munu skaða heiminn eða Bandaríkin.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka