Frönsk samkeppnisyfirvöld hafa sektað bandaríska tæknifyrirtækið Apple um 150 milljónir evra, eða sem nemur 21 milljarði kr., vegna brota á persónuverndarlögum en málið tengist hugbúnaði Apple sem safnar saman gögnum um notendur í þeim forritum, eða öppum, sem þeir nota. Aðrir hafa einnig verið sektaðir í tengslum við málið.
Frönsk yfirvöld segja að aðferðin sem Apple notar til að innleiða App Tracking Transparency-hugbúnaðinn (ATT) sé „hvorki nauðsynleg né í réttu hlutfalli við yfirlýst markmið fyrirtækisins um verndun á gögnum notenda“.
Auk sektarinnar þarf Apple að birta ákvörðun samkeppnisyfirvalda á vefsíðu sinni í sjö daga.
Yfirvöld í Þýskalandi, Ítalíu, Rúmeníu og Póllandi hafa hafið svipaðar rannsóknir á ATT, sem Apple auglýsir sem sérstaka persónuverndarráðstöfun.
Þessi eiginleiki, sem Apple kynnti árið 2021, krefst þess að forrit hljóti samþykki notanda í gegnum sprettiglugga áður en þau rekja virkni þeirra í öðrum forritum og vefsíðum.
Hafni notendur þessu þá missir forritið aðgang að auglýsingaauðkenni notandans sem opnar á möguleika á sérsniðum auglýsingum (e. ad targeting).
Ýmsir hafa sakað Apple um að nota kerfið til að kynna sína eigin auglýsingaþjónustu á sama tíma og samkeppnisaðilar sjáist í minna mæli í tækjum Apple.
Í ákvörðun sinni sagði franska samkeppniseftirlitið að ATT-eiginleikinn leiddi til óhóflega margra samþykkisglugga fyrir forrit þriðja aðila á iPhone og iPad-tækjum, sem gerir upplifunina íþyngjandi.
Það komst einnig að því að kerfi Apple krefðist þess að notendur afþökkuðu auglýsingarakningu tvisvar í stað einu sinni sem grafi undan hlutleysi eiginleikans og valdi efnahagslegu tjóni fyrir forritaútgefendur og þjónustuaðila auglýsinga.