Bandaríska utanríkisráðuneytið segir varhugavert að útiloka stjórnmálamenn frá þátttöku í kjölfar þess að franskur dómstóll bannað Marine Le Pen, leiðtoga frönsku Þjóðfylkingarinnar, að bjóða sig fram til pólitísks embættis í fimm ár.
Marine Le Pen segir að dómurinn yfir henni sé pólitískur og að hún muni áfrýja, enda sé hún saklaus.
Tammy Bruce, talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins, sagði á blaðamannafundi fyrr í dag að fólk ætti að muna eftir ræðu JD Vance, varaforseta Bandaríkjanna, í febrúar í Þýskalandi þar sem hann varaði við því að í Evrópu væri verið að vega að tjáningarfrelsi.
„Við verðum að gera meira í vestræna heiminum heldur en að tala um lýðræðisleg gildi, við verðum að lifa þau. Útilokun fólks frá stjórnmálaferlinu er sérstakt áhyggjuefni í ljósi þeirrar árásargjörnu og spilltu lagaherferðar sem háð var gegn Trump hér í Bandaríkjunum,“ sagði Tammy Bruce.
Le Pen hlaut enn fremur fjögurra ára dóm en hún þarf aftur á móti ekki að fara í fangelsi þar sem tvö ár af dómnum eru skilorðsbundin og hin tvö verða afplánuð utan fangelsis með rafrænu ökklabandi.
Málið varðar fjárdrátt úr sjóðum Evrópuþings. Fjármunir sem áttu að fara í aðstoðarmenn Þjóðfylkingarinnar á Evrópuþinginu fóru þess í stað í aðstoðarmenn sem störfuðu fyrir flokkinn utan Evrópuþingsins. Le Pen var aftur á móti ekki sökuð um að hafa grætt fjárhagslega á þessu.
Málið hefur vakið mikla reiði meðal stuðningsmanna hennar og fyrr í kvöld mætti Le Pen í sitt fyrsta viðtal í kjölfar dómsins þar sem hún sagði úrskurðinn vera byggðan á pólitík.
Forsetakosningar eiga að fara fram árið 2027 og samkvæmt skoðanakönnunum nýtur hún mests stuðnings. Aftur á móti getur hún ekki boðið sig fram í þeim kosningum ef dómurinn stendur.
„Ég ætla ekki að láta taka mig úr leik svona. Ég ætla að nýta mér öll lagaleg úrræði sem ég get. Það er til lítil leið. Hún er vissulega þröng, en hún er til,“ sagði hún og hvatti dómstólana til að leyfa henni að áfrýja málinu fyrir dómstólum sem fyrst svo hún gæti enn tekið þátt í kosningunum 2027.