Hamas vill grípa til vopna gegn áformum Trumps

Hugmyndir Trumps um framtíð Gasa leggjast illa í liðsmenn Hamas.
Hugmyndir Trumps um framtíð Gasa leggjast illa í liðsmenn Hamas. AFP

Háttsettur leiðtogi Hamas hvetur stuðningsmenn um allan heim til að grípa til vopna og berjast gegn áformum Donalds Trump Bandaríkjaforseta um að flytja meira en tvær milljónir Gasabúa til nágrannalanda eins og Egyptalands og Jórdaníu.

„Andspænis þessari vondu áætlun, sem sameinar fjöldamorð og hungursneyð, verður hver sá sem getur borið vopn, hvar sem er í heiminum, að grípa til aðgerða,“ sagði Sami Abu Zuhri í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér.

„Haldið ekki aftur af sprengju, kúlu, hnífi eða steini. Látum alla rjúfa þögnina.“

Trump Bandaríkjaforseti hefur lagt til að Palestínumönnum verði vikið frá Gasa og að Bandaríkin fái að endurreisa það.

Vill að Bandaríkin eignist Gasa og byggi það upp

Trump sagði í viðtali í febrúar að íbúar Gasasvæðisins myndu ekki fá að snúa aftur heim, heldur ættu þeir að fá varanleg heimili núna í nágrannaríkjunum.

Sagði Trump að það gæti tekið mörg ár áður en Gasasvæðið yrði byggilegt á ný, og að í millitíðinni ættu Bandaríkin að eignast svæðið og byggja það upp.

Trump lýsti einnig yfir að hann gæti stöðvað aðstoð til Egyptalands og Jórdaníu ef þau neituðu að taka við íbúum Gasasvæðisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert