Hlutabréfamarkaðir í Bandaríkjunum lækkuðu við opnun þeirra í dag en á miðvikudaginn mun Donald Trump Bandaríkjaforseti sýna á spilin með umfangsmikla tolla sem hann hefur boðað.
Trump hefur sjálfur sagt að 2. apríl verði „frelsisdagurinn“ en þá hyggst hann kynna tolla gegn viðskiptaþjóðum Bandaríkjanna. Ekki er ljóst hvað verður tollalagt, hversu margar þjóðir verða fyrir barðinu á þeim né almennt umfang tollana.
S&P 500-vísitalan hefur lækkað um í kringum 1% það sem af er degi og Nasdaq Composite-vísitalan um næstum 2%. Hlutabréf tæknifyrirtækja eins og Nvidia, Tesla og Palantir lækkuðu í upphafi viðskipta.
„Fjárfestar eru núna að reyna að glíma við það sem er í vændum varðandi tolla,“ sagði Steve Sosnick frá Interactive Brokers við AFP.
„Og skilaboðin frá forsetanum um helgina veita ekki mikla skýringu,“ bætti hann við.
Trump sagði á sunnudaginn að tollarnir yrðu „örlátari“ heldur en viðkomandi þjóðir hafa verið í garð Bandaríkjanna.
Gull hækkaði í verði sem gerist oft þegar óstöðugleiki á mörkuðum er mikill.