Þórunn Sveinbjarnardóttir, forseti Alþingis, heimsótti Bútsja í Úkraínu í dag ásamt fleiri evrópskum þingforsetum. Einmitt þrjú ár eru liðin frá því að Rússar hörfuðu úr þorpinu og gagnsókn Úkraínu hófst, en hryllingurinn sem átti sér stað þar er einn svartasti kafli í sögu Úkraínustríðsins.
Rússar náðu Bútsja á sitt vald snemma í innrásinni, 27. febrúar 2022, en voru hraktir á brott 31. mars sama ár og er þess dags minnst sem dagsins sem Úkraínumenn loks hrintu innrás Rússa á bak aftur og gagnsókn Úkraínumanna hófst.
En skelfilegir atburðir sem urðu þennan mánuð hafa skyggt á þann árangur enda kom fljótt í ljós að þeir íbúar sem ekki náðu að flýja bæinn í tæka tíð þegar Rússarnir réðust inn hefðu lifað við hreint helvíti.
Hryllileg aðkoma blasti við þegar Úkraínumenn sneru aftur til Bútsja; lík lágu á víð og dreif milli rústanna í þorpinu, sum bundin í hendur og fætur, og fjöldagrafir með hundruðum manns voru grafnar upp.
Rússar höfðu drepið 450 manns, að sögn Úkraínumanna. Auk þess greindu tugir stúlkna og kvenna frá því að rússneskir hermenn hefðu nauðgað sér í þorpinu.
Og þó, þegar Þórunn gekk um bæinn í dag kom henni á óvart hve fá ummerki stæðu eftir um þann hrylling sem átti sér stað í bænum fyrir þremur árum. Hún segir að þorpið sé að mestu leyti endurbyggt og fólk hafi aftur flutt í bæinn.
„Þetta er venjulegur bær í sirka 20 mínútna akstursfjarlægð frá höfuðborginni,“ segir Þórunn í samtali við mbl.is en hún og 16 aðrir þingforsetar frá Evrópu eru nú í heimsókn í Bútsja.
Hún segir að einhver starfssystkini sín í heimsókninni hafi haft orð á því að bærinn væri nær óþekkjanlegur frá því sem blasti við fyrir tæpum þremur árum.
En við kirkju í bænum stendur mikill minnisvarði með nöfnum þeirra sem teknir voru á lífi þennan svarta marsmánuð 2022. Rússar höfðu grafið fjöldagröf við hlið kirkjunnar þar sem tugir líka fundust.
Minningarathöfn var haldin við minnisvarðann í dag.
„Það var sorgleg stund, en mikilvæg,“ segir Þórunn um athöfnina og bætir við að heimamenn hafi einnig tekið þátt í athöfninni. Þórunn er nú á leiðinni heim til Íslands eftir fundinn.
Þórunn hitti Rúslan Stefansjúk, forseta Úkraínuþings, og sátu þingforsetarnir átján fund með Volodimír Selenskí Úkraínuforseta.
Að sögn Þórunnar var rauði þráðurinn í samtölum þingforsetanna – annars vegar á leiðtogaráðstefnu og hins vegar á fundi með Selenskí seinna um daginn – að tryggja þyrfti frið en ekki á forsendum rússneskra stjórnvalda.
Stjórnvöld í Úkraínu hafi þakkað fyrir alla þá hjálp sem þeim hefur verið veitt. Selenskí og Stefansjúk hafi báðir þakkað Íslandi sérstaklega fyrir sinn stuðning.
„Hann þakkaði fyrir það sem við höfum gert hér, bæði tjónaskráninguna [sem var samþykkt á leiðtogafundi í Hörpu 2023] og mannúðaraðstoð og fleira,“ segir hann.
„Það er ljóst að þessir menn vita mjög vel hvaðan aðstoðin kemur og hverjir standa með þeim.“
En diplómatísk atburðarás síðasta mánaðar setti skugga sinn á heimsóknina, þá einna helst rifrildi Selenskís við Donald Trump Bandaríkjaforseta og J.D. Vance í Hvíta húsinu í byrjun mars.
„Hér er fólk mjög meðvitað um það að þetta eru hættulegir tímar, vegna þess að Bandaríkjastjórn segist vilja semja um frið við Rússland – fyrst átti Úkraína ekki að fá að vera með í því samtali en það hefur sem betur fer breyst,“ segir hún en Sádi-arabar halda utan um þær viðræður.
„En það stendur alla vegana upp úr hverjum manni sem ég hef talað við að stjórnmálamenn hér taka lítið mark á því sem Pútín [Rússlandsforseti] segir opinberlega, eða taka lítið mark á því að hann vilji raunverulega semja frið. En verkefnið sé að knýja hann til friðarsamninga,“ segir hún.
Atburðarrás síðasta mánaðar er varðar Donald Trump Bandaríkjaforseta hlýtur líka að hafa litað andrúmsloftið, ekki satt? Á fólk ekki alveg jafn erfitt að stóla á það sem Trump segir?
„Að einhverju leyti getur það verið,“ svarar hún og heldur áfram:
„En mér fannst bæði Stefansjúk þingforseti og Selenskí forseti tala af yfirvegun og skynsemi um þá stöðu. Þeir sögðu: Úkraína þarf á Bandaríkjunum að halda, rétt eins og bandamönnum sínum í Evrópu, til þess að ná Rússlandsstjórn að samningaborði og til þess að enda þetta stríð á forsendum sem Úkraína geti sætt sig við.“
Hún segir ráðamenn í Úkraínu vera raunsæja.
„Kannski hefði fólk haldið að þeir væru bugaðir eftir samtöl og fundi með Bandaríkjaforseta, en svo er alls ekki.“
Í færslu á X skrifaði Selenskí í dag að hann hefði í ræðu sinni við minningarathöfnin sagt að „við viljum öll að þessu stríði ljúki um leið og hægt er“. Hann tók einnig fram að allt að 183.000 stríðsglæpir sem tengjast Rússlandi hafi verið skrásettir.
„Og það er án aðgangs að umtalsverðum hluta af hernumda svæðinu,“ bætir hann við.
Hann tók enn fremur fram að Bútsja væri ekki „einhverstaðar þarna í Úkraínu“ heldur „það sem gæti gerst í hvaða Evrópulandi sem er“ ef mistekst að láta Rússa axla ábyrgð fyrir sínar gjörðir.
„Takk fyrir ykkar stuðning við Úkraínu og úkraínsku þjóðina.“