Þriggja líka fundur

Þrjú lík fundust í suðurnorska smábænum Lindesnesi í morgun og …
Þrjú lík fundust í suðurnorska smábænum Lindesnesi í morgun og heyrir til stórfrétta. Líkfundirnir þrír eru rannsakaðir sem tvö mál. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Þrír líkfundir settu svip sinn á störf lögreglunnar í Lindesnesi í Suður-Noregi í morgun og hefur hún hafið manndrápsrannsókn í tilefni fundanna, meðal annars með það fyrir augum að leiða fram hugsanleg tengsl hinna látnu.

„Við stöndum frammi fyrir alvarlegu atviki. Lögreglan í Agder beitir nú öllum tiltækum úrræðum við rannsóknina,“ segir Tove Haugland ákæruvaldsfulltrúi umdæmisins við norska ríkisútvarpið NRK.

Það var um hálffimmleytið í morgun sem lögreglan í Agder hélt með viðbúnaði að heimilisfangi á Vigeland í Lindesnes, í kjölfar þess er tilkynningar höfðu borist um hávaða þaðan.

Þriðja líkið annars staðar

Er inn í íbúðarhúsnæði á staðnum var komið reyndust tvö lík þar innandyra og er sá líkfundur rannsakaður sérstaklega sem eitt mál. Um klukkustundu síðar var tilkynnt um slasaðan mann við hlið bifreiðar við gatnamótin Mandalskrysset skammt undan og hafði dregið svo af honum er viðbragðsaðilar komu á vettvang að hann var úrskurðaður látinn á staðnum.

Er það dauðsfall nú rannsakað sem grunsamlegt, að sögn Hauglands, og tengsl milli allra þriggja líkfundanna ekki talið útilokuð. Biður lögreglan í Agder alla eigendur bifreiða með myndavélabúnaði á svæðinu að láta vita af sér auk allra þeirra íbúa eða vegfarenda um Lindesnes sem gætu hafa veitt einhverju athygli er tengja mætti dauðsföllunum.

Þá stöðvaði vopnuð lögregla ökumenn á E39-brautinni, við Helleland, í dag eftir því sem staðarblaðið Dalane Tidende.

NRK
VG

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert