Yfir þúsund drepnir á þrettán dögum

Yfir 50.000 manns hafa látist á Gasasvæðinu frá 7. október …
Yfir 50.000 manns hafa látist á Gasasvæðinu frá 7. október 2023, þar af 1.001 á síðustu tólf dögum. AFP

Heilbrigðisráðuneytið á Gasasvæðinu, sem er undir stjórn Hamas, greinir frá því að 1.001 manns hafi látið lífið eftir að Ísrael hóf á ný umfangsmiklar árásir á svæðið.

Aðeins þrettán dagar eru liðnir síðan Ísrael hóf árásir að nýju. Þá lýsti Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, því yfir að samningaviðræður um vopnahlé myndu halda áfram undir skothríð.

Yfir 50.000 manns látist frá 7. október 2023

Í ávarpi sínu til þjóðarinnar sagði Netanjahú að Ísrael hefði reynt að ná samkomulagi við Hamas um lausn gíslanna sem samtökin halda föngnum, en án árangurs.

Hann sagði jafnframt að Ísraelsher myndi halda áfram hernaðaraðgerðum þar til öllum gíslum hefði verið skilað og tryggt væri að Ísrael stæði ekki lengur ógn af Hamas.

Í kjölfarið sendi Hamas frá sér yfirlýsingu þar sem fram kom að endurtekin ofbeldisverk Ísraels á Gasasvæðinu myndu jafngilda „dauðadómi“ yfir þeim gíslum sem enn væru á lífi í haldi þeirra.

Samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðisráðuneytinu hafa 80 manns látist á Gasasvæðinu síðustu tvo daga, og heildarfjöldi látinna er nú kominn upp í 50.357 frá því stríðið hófst 7. október 2023.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert