Dómsmálaráðherra Bandaríkjanna hefur óskað eftir því við alríkissaksóknara að krafist verði dauðarefsingar yfir Luigi Mangione, sem er ákærður fyrir morðið á Brian Thompson, forstjóra tryggingadeildar UnitedHealth Group, í New York á síðasta ári.
Karen Friedman Agnifilo, lögmaður Mangione, segir ákvörðunina um að krefjast dauðarefsingar „villimannslega“.
„Á meðan alríkisstjórnin þykist vernda gegn morði, stefnir hún að því að fremja fyrir fram ákveðið, ríkisstyrkt morð á Luigi,“ sagði Agnifilo.
Dæmt verður í máli Mangione bæði fyrir alríkisdómstólnum og fyrir dómstólum í New York.
Hann á yfir höfði sér 11 kærur í New York, þar á meðal morð af fyrstu gráðu og morð sem hryðjuverkaglæp. Hann hefur neitað sök fyrir dómstólum í New York, en verði hann fundinn sekur um öll atriðin á hann yfir höfði sér lífstíðarfangelsisdóm án möguleika á reynslulausn.
Verði Mangione fundinn sekur fyrir alríkisdómstólnum mun kviðdómur ákvarða hvort mæla eigi með dauðarefsingu.