Lars Løkke Rasmussen, utanríkisráðherra Danmerkur, mun hitta starfsbróðir sinn Marco Rubio, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, á fundi Atlantshafsbandalagsins í vikunni.
Frá þessu greinir ráðuneyti Rasmussen í tilkynningu þar sem segir að ekki verði rætt um Grænland eða áhuga Donalds Trumps Bandaríkjaforseta um að vilja eignast landið. Segir þó í tilkynningunni að rætt verði m.a. um ástandið í Úkraínu og öryggi í Evrópu.
„Fundurinn á milli Lars Løkke Rasmussen og Marco Rubio er áætlaður í tengslum við fund utanríkisráðherra Nato í Brussel á fimmtudag og föstudag,“ sagði í tilkynningu danska ráðuneytisins.
J.D. Vance varaforseti Bandaríkjanna og eiginkona hans, Usha Vance, heimsóttu Grænland í síðustu viku sem margir töldu undirstrika enn frekar yfirlýstan áhuga Trumps á að ná yfirráðum á Grænlandi.
Áhugi Trumps á Grænlandi hefur fallið í grýttan jarðveg hjá heimamönnum. Ný heimastjórn Grænlands hefur undirstrikað að virða eigi lýðræðislegan rétt Grænlendinga til að ráða eigin málum.