Demókrataflokkurinn vestanhafs hefur stefnt ríkisstjórn Donalds Trumps Bandaríkjaforseta fyrir meinta tilraun til gagngerra breytinga á kosningafyrirkomulagi í Bandaríkjunum, meðal annars með því að að kjósendum sé gert skylt að sýna fram á ríkisborgararétt til skráningar á kjörskrá og draga úr vægi póstlagðra atkvæðaseðla.
Í gær krafðist flokkurinn enn fremur lögbanns gegn forsetatilskipun sem bannaði talningu póstlagðra atkvæðaseðla í einstökum ríkjum berist þau kjörstöðum eftir kjördag.
„Forsetinn er þess ekki bær að hrófla við kosningareglum,“ segir í stefnunni sem landsnefnd Demókrataflokksins lagði fram í gær, þar á meðal þeir Chuck Schumer og Hakeem Jeffries, leiðtogar Demókrataflokksins, hvor í sinni deild Bandaríkjaþings.
Segir enn fremur í málsástæðum og lagarökum stefnunnar að tilskipun Trumps hafi verið ætlað að gera á því grundvallarbreytingar hvernig bandarískum kosningum sé hagað og lýðræðislegri þátttöku alls almennings landsins og með því hefta umboð löglegra kjósendameð ólögmætum hætti.
Bandarískir lögspekingar afgreiddu tilskipun forsetans á sínum tíma sem misbeitingu forsetavalds sem sett gæti milljónum löglegra kjósenda stólinn fyrir dyrnar við að nýta kosningarétt sinn við val kjörinna fulltrúa.