Heathrow fékk aðvörun nokkrum dögum fyrir lokun

Heathrow-flugvöllur.
Heathrow-flugvöllur. AFP

Forsvarsmenn Heathrow-flugvallar fengu aðvörun í sambandi við raforkukerfi vallarins nokkrum dögum áður en honum var lokað vegna rafmagnsleysis með tilheyrandi röskunum.

Nigel Wicking, framkvæmdastjóri Heathrow Airline Operators Committee, sem er í forsvari fyrir þau flugfélög sem nota flugvöllinn, greindi breskri þingnefnd frá því í dag að hann hefði greint frá áhyggjum sínum í tvígang.

Vírum og köplum stolið

„Þetta var í kjölfar nokkurra atvika þar sem, því miður, vírum og köplum í kringum rafstöðina hafði verið stolið, og í eitt skipti slokknuðu ljósin á flugbraut um tíma,“ sagði hann er hann sat fyrir svörum samgöngunefndar þingsins.

„Það olli mér augljóslega áhyggjum og þess vegna vakti ég máls á því að ég vildi skilja betur heildarviðnámsþol flugvallarins,“ bætti hann við.

Hafði samband fimm dögum fyrir brunann

Wicking sagðist hafa rætt við framkvæmdastjóra Team Heathrow þann 15. mars og rekstrarstjóra og yfirmann viðskiptatengsla fjórum dögum síðar.

Daginn eftir, eða seint að kvöldi 20. mars, kviknaði eldur í rafstöð í Hayes í vesturhluta Lundúna sem varð þess valdandi að flugvellinum var lokað. Það hafði áhrif á þúsundir farþega um allan heim.

Hafa áhyggjur af stöðunni

Það að einn eldur hafi orðið þess valdandi að starfsemi vallarins lá alveg niðri hefur vakið áhyggjur um viðnámsþrótt hans.

Bresk stjórnvöld hafa fyrirskipað rannsókn á málinu sem á að skila niðurstöðum eftir sex vikur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert