Norðmaðurinn Rolf Nordmo hlaut í gær lífstíðardóm fyrir héraðsdómi í Finnlandi fyrir að myrða fyrrverandi kærastann sinn, hinn 29 ára gamla Janne Puhakka, landskunna ísknattleiks- og raunveruleikaþáttastjörnu, 13. október í fyrra á heimili þeirra í finnsku borginni Esbo, en Puhakka var þá nýlega fluttur þaðan út í kjölfar sambandsslita þeirra.
Lífstíðarfangelsi í Finnlandi telst í framkvæmd á bilinu tólf til 20 ára fangelsi, en sá sem slíkan dóm hlýtur á þess fyrst kost að sækja um reynslulausn að tólf ára afplánun lokinni.
Hlaut Nordmo, sem er 66 ára að aldri, dóminn fyrir „gróft manndráp“ sem svo heitir í finnskri refsilöggjöf, en saksóknara tókst ekki að sannfæra dóminn um, að um manndráp að yfirlögðu ráði hefði verið að ræða. Engu að síður kemur það fram í dómsorði að rétturinn telji Nordmo hafa skipulagt verknað sinn að hluta.
Puhakka naut mikillar hylli meðal landa sinna, var ástsæll íþróttamaður á skautasvellinu og álitinn fyrirmynd innan ísknattleiksheimsins fyrir að vera fyrsti opinberlega samkynhneigði leikmaðurinn á knattsvellinu í Finnlandi.
Í dóminum, sem Héraðsdómur Västra Nylands kvað upp, segir að Nordmo hafi lagt á ráðin um gróft og miskunnarlaust dráp kærastans fyrrverandi. Honum hefði verið fullljóst að víg raunveruleikastjörnunnar kæmi til með að vekja þjóðarathygli í Finnlandi og hefði Nordmo verið heltekinn af vitneskjunni um nýjan kærasta Puhakkas er hann tók ákvörðun um brot sitt.
Skaut hann Puhakka tvívegis með haglabyssu á heimili þeirra, en dómurinn taldi ósannað að Nordmo hefði flutt vopnið með sér frá Noregi til Finnlands til að koma ódæðinu fram og því þættu skilyrði til að dæma fyrir manndráp að yfirlögðu ráði ekki fyrir hendi.
Fjölskipaður héraðsdómur var einróma í dómsorði sínu um lífstíðarfangelsi fyrir manndráp sem framið hefði verið án snefils af virðingu fyrir fórnarlambinu og að hluta skipulagt fyrir fram. Var Nordmo enn fremur gert að greiða foreldrum kærasta síns fyrrverandi sínar 20.000 evrurnar hvoru, jafnvirði tæpra 2,9 milljóna króna, í skaðabætur fyrir sonarmissinn og systrum hans 11.000 evrur hverri, jafnvirði tæpra 1,6 milljóna króna.