Ákæra hefur verið gefin út á hendur fjórum mönnum í hinu svokallaða Aurskog-Høland-máli í Noregi, einu nokkurra nýlegra sakamála þar í landi sem eiga það sameiginlegt að norskir undirheimamenn sem troða illsakir við aðra panta einfaldlega leigumorðingja, gjarnan á táningsaldri, frá sænskum glæpaklíkum.
Eru téð mál, og raunar fleiri atburðir í norskum undirheimum nýlega, skýr dæmi um samninga milli hópa afbrotamanna í skandinavísku nágrannalöndunum tveimur um alvarleg afbrot sem innleigðu mönnunum frá Svíþjóð er ætlað að fremja í Noregi, en önnur hlið á þeim peningi er sókn sænskra glæpaklíka á borð við Foxtrot og Shottaz inn í undirheima Noregsmegin þar sem menn eiga einfaldlega síður á hættu að vera drepnir.
Aurskog-Høland-málið snýst um tilraun í júní í fyrra til að kveikja í einbýlishúsi í téðu sveitarfélagi í Akershus-fylki sem umlykur norsku höfuðborgina Ósló. Í húsinu býr fjölskylda með tvö börn og snerist málið um skuld heimilisföðurins við verkbeiðanda í Noregi, en aðalákærði í málinu, tvítugur Svíi, er grunaður um að hafa borið eld að húsinu. Auk hans sætir annar Svíi ákæru og tveir Norðmenn, þar af sá sem grunaður er um að hafa pantað atlöguna.
„Málið er hið alvarlegasta,“ segir Trude Antonsen héraðssaksóknari í samtali við norska ríkisútvarpið NRK, „ákæruvaldið telur heppni eina hafa ráðið því að mannslíf fóru ekki forgörðum,“ heldur hún áfram, en fjölskyldan svaf værum svefni á heimili sínu þegar aðkeyptur afbrotamaður frá Svíþjóð gusaði bensíni yfir veggi hússins klukkan hálffimm aðfaranótt 25. júní í fyrra og bar því næst eld að.
Norðmaðurinn, sem grunaður er um að hafa pantað aðförina, er 26 ára gamall, hann er eftirlýstur þar sem hann fer huldu höfði erlendis, en landi hans, 31 árs, sem meðákærður er, útvegaði búnað og annaðist akstur að haldi ákæruvaldsins. Fjórði maðurinn í málinu er 21 árs gamall Svíi sem ákærður er fyrir að ráða brennumanninn til verksins.
Rannsakaði norska lögreglan málið sem svokallað „crime as service“-mál, afbrot sem þjónustuvöru, og segir hugtakið meira en mörg orð um þróunina í skandinavískum undirheimum hin síðustu ár sem Morgunblaðið og mbl.is hafa fylgt ítarlega eftir.
NRK-II (pöntunarmaðurinn eftirlýstur)
NRK-III (tálbeituaðgerð norskrar lögreglu við aðra drápspöntun)