Tala látinna af völdum stóru jarðskjálftana í Mjanmar síðastliðinn föstudag er komin yfir 3.000 að sögn talsmanna stjórnarhersins í landinu.
Í yfirlýsingu frá talsmanni herforingjastjórnarinnar segir að staðfest hafi verið að 3.085 hafi látist, 341 er enn saknað og 4.715 særðir. Stærsti skjálftinn mældist 7,7 að stærð og olli hann mikilli eyðileggingu í Mjanmaar og sömuleiðis í Taílandi.
Björgunar- og hjálparstarfsmenn frá 17 löndum taka þátt í hjálpar- og leitarstarfi og borist hafa um eitt þúsund tonn af birgðum og hjálpargögnum.
„Við höfum haldið áfram leitar- og björgunarstarfi, við viljum koma á framfæri sérstöku þakklæti fyrir mikla vinnu alþjóðasamfélagsins og læknateyma,“ segir í yfirlýsingu talsmanns stjórnarhersins.
Í Taílandi hafa yfirvöld staðfest að 22 hafi látist í jarðskjálftunum og er 70 enn saknað eftir að 30 hæða skýjagljúfur sem var í byggingu hrundi. Leit stendur enn yfir í rústum byggingarinnar en vonir um að finna einhverja á lífi eru ekki taldar miklar.