Ríkisstjórn Ungverjalands hefur látið þau boð út ganga að hún muni draga aðild landsins að Alþjóðaglæpadómstólnum í Haag, ICC, til baka. Þetta tilkynnti Gergely Gulyas, hátt settur embættismaður í ríkisstjórn Viktors Orbans forsætisráðherra, aðeins klukkustundum eftir að ísraelski forsætisráðherrann Benjamín Netanjahú kom í opinbera heimsókn til landsins.
Hefur dómstóllinn gefið út handtökuheimild á hendur forsætisráðherranum og hefði Ungverjum því borið skylda að alþjóðalögum til að handtaka þann ísraelska. Á heimsóknin sér nokkurn aðdraganda þar sem Orban bauð starfsbróður sínum til hennar í nóvember, í kjölfar þess er dómstóllinn gaf heimildina út.
Þá komust dómendur í Haag að þeirri niðurstöðu að ástæða væri til að ætla að Netanjahú bæri sakarábyrgð á meintum stríðsglæpum og glæpum gegn mannkyni er framdir hefðu verið í stríði Ísraela og Hamas-samtakanna palestínsku. Fordæmdi Netanjahú úrskurð dómendanna sem gyðingahatur.
Ungverjaland er eitt stofnríkja dómstólsins en aðildarríki hans eru nú 125 talsins. Bandaríkin, Rússland, Kína og Ísrael viðurkenna þó ekki lögsögu dómstólsins.