Ungverjar draga aðildina til baka

Höfuðstöðvar Alþjóðaglæpadómstólsins í Haag í Hollandi. Ungverjar draga aðild sína …
Höfuðstöðvar Alþjóðaglæpadómstólsins í Haag í Hollandi. Ungverjar draga aðild sína til baka. AFP

Ríkisstjórn Ungverjalands hefur látið þau boð út ganga að hún muni draga aðild landsins að Alþjóðaglæpadómstólnum í Haag, ICC, til baka. Þetta tilkynnti Gergely Gulyas, hátt settur embættismaður í ríkisstjórn Viktors Orbans forsætisráðherra, aðeins klukkustundum eftir að ísraelski forsætisráðherrann Benjamín Netanjahú kom í opinbera heimsókn til landsins.

Hefur dómstóllinn gefið út handtökuheimild á hendur forsætisráðherranum og hefði Ungverjum því borið skylda að alþjóðalögum til að handtaka þann ísraelska. Á heimsóknin sér nokkurn aðdraganda þar sem Orban bauð starfsbróður sínum til hennar í nóvember, í kjölfar þess er dómstóllinn gaf heimildina út.

Fordæmdi úrskurðinn

Þá komust dómendur í Haag að þeirri niðurstöðu að ástæða væri til að ætla að Netanjahú bæri sakarábyrgð á meintum stríðsglæpum og glæpum gegn mannkyni er framdir hefðu verið í stríði Ísraela og Hamas-samtakanna palestínsku. Fordæmdi Netanjahú úrskurð dómendanna sem gyðingahatur.

Ungverjaland er eitt stofnríkja dómstólsins en aðildarríki hans eru nú 125 talsins. Bandaríkin, Rússland, Kína og Ísrael viðurkenna þó ekki lögsögu dómstólsins.

BBC

CNN

Al Jazeera

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert