Jón Bjarki Bentsson segir „dæmalausa“ formúlu Donalds Trumps Bandaríkjaforseta, sem notuð var til að ákvarða tollprósentu á þjóðir heims, fá menn til að klóra sér í höfðinu því hún eigi ekkert skylt við almenna tollaútreikninga.
Hann segir það algjöra jaðarskoðun að stefnan sé heppileg fyrir efnahag þjóða.
Formúlan sem var notuð er ekki svo flókin, en hún er umdeild.
Til þess að ákvarða tollprósentuna hafði Trump svokallaðan vöruskiptahalla Bandaríkjanna við aðrar þjóðir, til hliðsjónar. Í einföldu máli snýst hann um það að ef meira er flutt af vörum frá tiltekinni þjóð til Bandaríkjanna en frá Bandaríkjunum á móti, þá skapast þessi halli.
Trump skoðaði þennan mun á inn- og útflutningi, reiknaði svo hve mikill vöruskiptahallinn væri, ef miðað er við heildarútflutning þjóða til Bandaríkjanna. Deildi hann svo þessum mun með tveimur.
Þannig ákvarðaði hann tollprósentuna á þjóðir heims.
Tollagólfið, eða lægsti mögulegi tollur sem Trump kynnti á miðvikudag, var svo 10%. Sá tollur var lagður á þjóðir sem flytja meira inn af bandarískum vörum heldur en þær flytja til Bandaríkjanna.
Ísland fellur í 10% flokkinn einfaldlega af þeirri ástæðu að til Íslands er flutt meira af bandarískum vörum en fluttar eru á móti til Bandaríkjanna. Með öðrum orðum er vörujöfnuður neikvæður gagnvart Bandaríkjunum á Íslandi.
Ef tekið er dæmi um viðskipti Bandaríkjanna og Evrópusambandsins þá er vöruskiptahallinn neikvæður um 39% út frá formúlu Bandaríkjamanna. Af þeim sökum setti Donald Trump 20% toll á vörur sem fluttar eru inn frá löndum ESB.
Hagfræðingar heimsins hafa keppst við að hafa formúluna að háði og spotti og að sögn Jóns Bjarka Bentssonar aðalhagfræðings Íslandsbanka hefur formúlan ekkert að gera með almenna tollaútreikninga.
Svo virðist sem fátækari lönd heims hafi fengið hvað hæsta tolla á sig og helgast það ekki síst af því að þau lönd hafa síður efni á því að flytja inn bandarískar vörur.
„Ef við tökum Víetnam sem dæmi þá er þetta ekkert hátækniland heldur eru þaðan fluttar inn matvörur, Nike-skór og íhlutir í tæki. Á móti er lítið um innflutning frá Bandaríkjunum inn í Víetnam. Af þeim sökum fengu þeir á sig himinháan toll vegna þessarar dæmalausu formúlu,“ segir Jón Bjarki.
Jafnvel hörðustu stuðningsmenn Trumps í viðskiptaheiminum hafa gagnrýnt tollaáformin.
„Þegar þetta kemur við budduna þá verða menn fljótt pirraðir,“ segir Jón Bjarki.
En hefur hann málsvara í einhverjum málsmetandi hagfræðingum?
„Nei, ég hef ekki séð neinn mæla þessu bót ef undan er skilið fólkið sem stendur honum nærri, einhverjir efnahagsráðgjafar. Eflaust eru slík sjónarmið til en það eru algjör jaðarskoðun í mínu fagi, að svona hörð tollastefna sé skynsamleg,“ segir Jón Bjarki.