Masoud Pezeshkian, forseti Íran, rak varaforseta landsins sem hefur umsjón með málefnum þingsins vegna ferðar hans til Suðurskautslandsins. Íran glímir við óðaverðbólgu.
Shahram Dabiri deildi mynd af sér og eiginkonu sinni nærri Plancius-skemmtiferðaskipinu á samfélagsmiðlum í lok mars.
Skipið hefur boðið upp á lúxusferðir til Suðurskautslandsins frá árinu 2009. Átta daga ferð fyrir einn kostar um það bil 3.900 evrur, eða um 570 þúsund krónur.
„Á tímum er efnahagsáhyggjur þjóðarinnar eru miklar... eru dýrar tómstundaferðir embættismanna, jafnvel þó þær séu greiddar úr eigin vasa, ekki réttlætanlegar,“ sagði í yfirlýsingu Pezeshkian forseta um uppsögnina.
Dabiri er 64 ára gamall læknir að mennt og hefur verið náinn samstarfsmaður forsetans. Hann var skipaður varaforseti í ágúst.
Ríkisstjórnin var harðlega gagnrýnd eftir að Dabiri birti myndina. Nokkrir stuðningsmenn forsetans hvöttu hann til þess að reka Dabiri.
Ríkisfjölmiðill Íran greindi frá því í apríl að talsmenn Daibiri sögðu myndina hafa verið tekna áður en hann tók við embætti.