Volodimír Selenskí Úkraínuforseti gagnrýnir viðbrögð bandaríska sendiráðsins í Kænugarði við loftárás Rússa í gær þar sem 18 manns, þar af níu börn, voru drepin. Segir hann starfsmenn sendiráðsins hrædda við að nota orðið „rússneskur“ í sömu andrá og barnamorð er rætt.
Selenskí segist meðal annars þakklátur fyrir viðbrögð utanríkisráðherra Tékklands, Finnlands, Litháen, Lettlands, Eistlands og Austurríkis og frá sendiráðum Japans, Bretlands, Sviss og Þýskalands.
„Því miður eru viðbrögð bandaríska sendiráðsins óvænt vonbrigði – svo öflugt land, svo öflugt fólk, en samt svo máttlaus viðbrögð. Þau eru jafnvel hrædd við að segja orðið „rússneskur“ þegar þau tala um flugskeyti sem myrti börn.“
Viðbrögðin sem um ræðir birti sendiherra Bandaríkjanna í Kænugarði, Bridget A. Brink, á X.
„Það er hryllilegt að í kvöld lenti flugskeyti nálægt leikvelli og veitingastað í Kríví Ríh. Fleiri en 50 manns særðust og 16 létust, þar af 6 börn. Þetta er ástæða þess að binda verður enda á stríðið,“ segir í færslu Brink.
„Já, stríðinu verður að ljúka. En til að ljúka því megum við ekki vera hrædd við að kalla hlutina sínum réttu nöfnum. Við megum ekki vera hrædd við að þrýsta á þann sem heldur þessu stríði áfram og hunsar allar tillögur heimsins um að ljúka því,“ segir Selenskí í sinni færslu.
„Við verðum að þrýsta á Rússland – sem kýs að drepa börn í stað þess að velja vopnahlé. Það verður að koma á frekari refsiaðgerðum gegn þeim sem geta ekki verið til án loftárása á nágrannaþjóð sína. Við verðum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að bjarga mannslífum.“
Segir hann jafnframt að loftvarnakerfi frá Bandaríkjunum geti komið í veg fyrir mannfall sökum loftárása líkt og þessum.