Tollahækkanir Trumps tóku gildi á miðnætti

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP/Mandel Ngan

10 pró­senta lág­mark­s­toll­ar á flestall­ar inn­flutt­ar vör­ur til Banda­ríkj­anna tóku gildi á miðnætti.

Á miðviku­dag­inn munu enn hærri toll­ar taka í gildi fyr­ir 60 viðskipta­ríki lands­ins, þar á meðal fyr­ir lönd Evr­ópu­sam­bands­ins, Jap­an og Kína.

Meðal tolla sem taka í gildi í næstu viku er 34% toll­ur á inn­flutn­ing frá Kína. Kín­verj­ar til­kynntu í gær­morg­un að lagður verði jafn hár toll­ur á banda­rísk­ar vör­ur sem svar við nýju tolla­stefn­unni.

Banda­rísk hluta­bréf lækkuðu veru­lega við opn­un markaða í gær en einnig lækkuðu hluta­bréf í Evr­ópu og Asíu.

Hag­fræðing­ar hafa varað við því að toll­arn­ir gætu dregið úr hag­vexti og ýtt und­ir verðbólgu.

Víðtæk­ustu toll­arn­ir frá krepp­unni miklu

Nýju alþjóðlegu toll­ar Trumps eru „víðtæk­ustu tolla­hækk­an­irn­ar síðan Smoot-Hawley-tolla­lög­in voru sett árið 1930, en þau lög eru best þekkt fyr­ir að hafa sett af stað alþjóðlegt viðskipta­stríð og dýpkað krepp­una miklu,“ sagði í til­kynn­ingu CSIS (Center for Stra­tegic and In­ternati­onal Studies).

Oxford Economics áætl­ar að þess­ar aðgerðir muni hækka meðaltal tolla í Banda­ríkj­un­um í 24 pró­sent „sem er jafn­vel hærra en sást á fjórða ára­tug síðustu ald­ar“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert