10 prósenta lágmarkstollar á flestallar innfluttar vörur til Bandaríkjanna tóku gildi á miðnætti.
Á miðvikudaginn munu enn hærri tollar taka í gildi fyrir 60 viðskiptaríki landsins, þar á meðal fyrir lönd Evrópusambandsins, Japan og Kína.
Meðal tolla sem taka í gildi í næstu viku er 34% tollur á innflutning frá Kína. Kínverjar tilkynntu í gærmorgun að lagður verði jafn hár tollur á bandarískar vörur sem svar við nýju tollastefnunni.
Bandarísk hlutabréf lækkuðu verulega við opnun markaða í gær en einnig lækkuðu hlutabréf í Evrópu og Asíu.
Hagfræðingar hafa varað við því að tollarnir gætu dregið úr hagvexti og ýtt undir verðbólgu.
Nýju alþjóðlegu tollar Trumps eru „víðtækustu tollahækkanirnar síðan Smoot-Hawley-tollalögin voru sett árið 1930, en þau lög eru best þekkt fyrir að hafa sett af stað alþjóðlegt viðskiptastríð og dýpkað kreppuna miklu,“ sagði í tilkynningu CSIS (Center for Strategic and International Studies).
Oxford Economics áætlar að þessar aðgerðir muni hækka meðaltal tolla í Bandaríkjunum í 24 prósent „sem er jafnvel hærra en sást á fjórða áratug síðustu aldar“.