Donald Trump Bandaríkjaforseti varaði landsmenn sína við að erfiðir tímar væru í vændum sem myndu þó skila sér í „sögulegum fjárfestingum“ og aukinni hagsæld til lengri tíma.
Tíu prósenta innflutningstollar frá fjölmörgum ríkjum til Bandaríkjanna tóku gildi að miðnætti, þar á meðal Íslandi.
Næstkomandi miðvikudag munu enn hærri tollar taka gildi fyrir 60 viðskiptaríki landsins, þar á meðal lönd Evrópusambandsins, Japan og Kína.
Nokkur ríki hafa þegar tilkynnt um mótvægisaðgerðir, til dæmis hafa kínversk stjórnvöld ákveðið að leggja 34% innflutningstoll á bandarískar vörur frá og með 10. apríl.
Trump tilkynnti um tollana á miðvikudaginn sem hefur valdið þó nokkrum óróa á mörkuðum og vakið upp ólík viðbrögð meðal sérfræðinga og stjórnmálamanna. Hagfræðingar hafa varað við því að tollarnir gætu dregið úr hagvexti og ýtt undir verðbólgu.
Forsetinn virðist ekki vera á sama máli en í færslu á samfélagsmiðli sínum Truth Social sagði hann að tollarnir væru efnahagsleg bylting.
„Við höfum verið heimsk og hjálparlaus, en ekki lengur. Við erum að færa störf og fyrirtæki til baka eins og aldrei fyrr. Þetta er efnahagsleg bylting sem við munum sigra. Haldið út, þetta verður ekki auðvelt, en niðurstaðan verður söguleg,“ skrifaði Trump.
Evrópusambandið hefur enn ekki gefið út hvernig það ætlar að svara 20% tolli Trumps sem tekur gildi á miðvikudag. Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, segir að verið sé að undirbúa mótvægisaðgerðir.
Auk þess 20% tolls sem hefur verið settur á innfluttar vörur frá ríkjum ESB til Bandaríkjanna hefur einnig verið tilkynnt um 25% toll á innfluttar bifreiðar. Er það talsverður skellur fyrir bílaiðnað í Evrópu sem er með sterka markaðshlutdeild í Bandaríkjunum.