Þingmaður breska verkamannaflokksins, Dan Norris, hefur verið sviptur þingflokksaðild eftir að hann var handtekinn í gær grunaður um kynferðislega misnotkun gegn barni, barnsrán og misferli í opinberu starfi.
Að sögn bresku lögreglunnar er talið að brotin hafi átt sér stað á árunum 2000 til 2010 en hún mun einnig rannsaka meint nauðgunarbrot frá árinu 2020.
Norris er á sjötugsaldri og var kosinn á þing í bresku þingkosningunum á síðasta ári. Hann var áður borgarstjóri sameinaðrar bæjarþyrpingar sem nefnist Vestur-England.
Verkamannaflokkurinn tilkynnti í yfirlýsingu að Norris hefði verið vikið úr flokknum.
„Dan Norris þingmaður var umsvifalaust sviptur þingflokksaðild í Verkamannaflokknum þegar okkur barst tilkynning um handtöku hans. Við getum ekki tjáð okkur frekar á meðan lögreglurannsókn stendur yfir,“ er haft eftir talsmanni flokksins.