Tvö bandarísk börn hafa látist af völdum mislinga en faraldur veirusjúkdómsins herjar á Texas og nærliggjandi ríki.
NYT greinir frá því að átta ára stúlka lést á fimmtudagsmorgun á sjúkrahúsi í Lubbock eftir að lungu hennar gáfu sig. Um er að ræða annað staðfesta dauðsfallið af völdum mislinga í Bandaríkjunum í áratug.
Í febrúar lést óbólusett barn í vesturhluta Texas af völdum sjúkdómsins.
Annar óbólusettur einstaklingur lést í Nýju-Mexíkó eftir að hafa verið greindur með mislinga. Óvíst er hvort sá einstaklingur lést af völdum sjúkdómsins.
Síðan faraldurinn hófst í Texas hafa 480 tilfelli verið staðfest í vesturhluta ríkisins. 56 hafa þurft að leggjast inn á sjúkrahús.
54 tilfelli hafa greinst í Nýju-Mexíkó og tíu í Oklahoma.
Ef veirusjúkdómurinn heldur áfram að breiða úr sér á álíka hraða stefnir í að Bandaríkin verði ekki lengur á meðal landa sem hafa náð að útrýma mislingum, en það var mikill sigur fyrir ríkið árið 2000.
Robert F. Kennedy heilbrigðisráðherra hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir viðbrögð sín við faraldrinum. Kennedy er efasemdamaður um bóluefni og hefur lagt áherslur á ósannaðar meðferðir við mislingum, svo sem þorskalýsi.
Samkvæmt læknum í Texas hefur orðræða Kennedy leitt til þess að sjúklingar dragi það á langinn að leita sér aðstoðar og innbyrði óhóflegt magn af A-vítamíni.