Felldu niður styrk ranglega merktan trans fólki

Bakslag hefur orðið í réttindum trans fólks eftir að Trump …
Bakslag hefur orðið í réttindum trans fólks eftir að Trump tók við embætti í byrjun árs. AFP

600 þúsund doll­ara al­rík­is­styrk­ur til að rann­saka tíðar­vör­ur var felld­ur niður eft­ir að hann var rang­lega eyrna­merkt­ur sem rann­sókn á tíðahring trans fólks. 

Styrk­ur­inn sem um ræðir var veitt­ur há­skóla í Louisi­ana.

Brooke Roll­ins land­búnaðarráðherra felldi styrk­inn niður í mars og sagði hann rang­lega vera styrk til þess að rann­saka „tíðahring trans karla“. 

Elon Musk fer fyr­ir sér­stakri stofn­un sem hef­ur það verk­efni að hagræða í rík­is­rekstri (DOGE). DOGE bás­únaði síðan til­kynn­ingu Roll­ins á vefsíðu sinni og sam­fé­lags­miðlin­um X. 

Reiði yfir því að ríkið væri að styrkja slíkt verk­efni varð svo mik­il á in­ter­net­inu að Sam­mi Kenn­e­dy, pró­fess­or­inn sem leiddi verk­efnið, var far­in að ótt­ast um ör­yggi sitt. 

„Mik­ill miss­ir fyr­ir kon­ur“

Verk­efnið, sem ber heitið „Proj­ect Farm to Fem­in­ine Hygiene“, átti að kanna mögu­leik­ana á að fram­leiða tíðavör­ur úr nátt­úru­leg­um efn­um. Þá fól verk­efnið einnig í sér fræðslu fyr­ir kon­ur og stúlk­ur um tíðahring­inn.

Í bréfi til Clay Higg­ins, þing­manns Louisi­ana, óskaði Sharon Donn­an eft­ir því að mis­skiln­ing­ur­inn yrði leiðrétt­ur og að styrk­ur­inn yrði áfram veitt­ur. Donn­an er ein af stofn­end­um Aca­di­an Brown Cott­on, fyr­ir­tæk­is sem hef­ur fram­leitt bóm­ull sem hef­ur verið nýtt til rann­sókna há­skól­ans. 

„Þetta er mik­ill miss­ir fyr­ir kon­ur,“ sagði Donn­an við AFP.

„Þetta ger­ir mig svo reiða að mig lang­ar að blóta.“

„Ekki rann­sókn á tíðahringn­um

Orðið „trans“ er ritað einu sinni í styrkjaum­sókn­inni fyr­ir verk­efnið þar sem seg­ir að trans karl­ar hafi sum­ir tíðir.

Há­skól­inn sagði í yf­ir­lýs­ingu að verk­efnið væri „ekki rann­sókn á tíðahringn­um“. Há­skól­inn neitaði AFP-frétta­veit­unni um viðtal. 

Bak­slag hef­ur orðið í rétt­ind­um trans fólks eft­ir að Trump tók við embætti í byrj­un árs.

Bannaði hann meðal ann­ars trans kon­um að taka þátt í íþrótt­um kvenna auk þess sem hann und­ir­ritaði til­skip­un þess efn­is að al­ríkið viður­kenndi ein­ung­is tvö kyn og að í banda­ríska hern­um yrði ekki leng­ur stuðst við það sem for­set­inn vís­ar til sem „trans-hug­mynda­fræði“.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert