600 þúsund dollara alríkisstyrkur til að rannsaka tíðarvörur var felldur niður eftir að hann var ranglega eyrnamerktur sem rannsókn á tíðahring trans fólks.
Styrkurinn sem um ræðir var veittur háskóla í Louisiana.
Brooke Rollins landbúnaðarráðherra felldi styrkinn niður í mars og sagði hann ranglega vera styrk til þess að rannsaka „tíðahring trans karla“.
Elon Musk fer fyrir sérstakri stofnun sem hefur það verkefni að hagræða í ríkisrekstri (DOGE). DOGE básúnaði síðan tilkynningu Rollins á vefsíðu sinni og samfélagsmiðlinum X.
Reiði yfir því að ríkið væri að styrkja slíkt verkefni varð svo mikil á internetinu að Sammi Kennedy, prófessorinn sem leiddi verkefnið, var farin að óttast um öryggi sitt.
Verkefnið, sem ber heitið „Project Farm to Feminine Hygiene“, átti að kanna möguleikana á að framleiða tíðavörur úr náttúrulegum efnum. Þá fól verkefnið einnig í sér fræðslu fyrir konur og stúlkur um tíðahringinn.
Í bréfi til Clay Higgins, þingmanns Louisiana, óskaði Sharon Donnan eftir því að misskilningurinn yrði leiðréttur og að styrkurinn yrði áfram veittur. Donnan er ein af stofnendum Acadian Brown Cotton, fyrirtækis sem hefur framleitt bómull sem hefur verið nýtt til rannsókna háskólans.
„Þetta er mikill missir fyrir konur,“ sagði Donnan við AFP.
„Þetta gerir mig svo reiða að mig langar að blóta.“
Orðið „trans“ er ritað einu sinni í styrkjaumsókninni fyrir verkefnið þar sem segir að trans karlar hafi sumir tíðir.
Háskólinn sagði í yfirlýsingu að verkefnið væri „ekki rannsókn á tíðahringnum“. Háskólinn neitaði AFP-fréttaveitunni um viðtal.
Bakslag hefur orðið í réttindum trans fólks eftir að Trump tók við embætti í byrjun árs.
Bannaði hann meðal annars trans konum að taka þátt í íþróttum kvenna auk þess sem hann undirritaði tilskipun þess efnis að alríkið viðurkenndi einungis tvö kyn og að í bandaríska hernum yrði ekki lengur stuðst við það sem forsetinn vísar til sem „trans-hugmyndafræði“.