Íranskur erindreki segir að stjórnvöld muni ekki verða við ósk Donalds Trumps Bandaríkjaforseta um beinar viðræður á milli hans og Ayatollah Ali Khamenei, æðsta klerks í klerkaveldi Írans, um kjarnorkuáætlanir landsins.
Trump sendi bréf til Khamenei og óskaði eftir samningaviðræðum en hótaði um leið beitingu hervalds ef stjórnvöld yrðu ekki við óskum hans.
Trump hefur sjálfur sagt að hann vilji beinar viðræður í stað annarra diplómatískra leiða og sagði að slíkt tæki styttri tíma en ella.
Abbas Araghchi, utanríkisráðherra Írans, segir aftur á móti að enginn áhugi sé á beinum viðræðum við Trump. Hann útilokaði þó ekki að nýta mætti diplómatískar leiðir til að ná sameiginlegri niðurstöðu í málinu og áréttaði raunar að Íranir væru tilbúnir í slíkar viðræður.